Erlent

Sakar Úkraínumenn um að beina flugskeytum að Hvíta-Rússlandi

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Alexander Lúkasjenka, einræðisherra Hvíta-Rússlands.
Alexander Lúkasjenka, einræðisherra Hvíta-Rússlands. AP/Sergei Shelega

Alexander Lukasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, heldur því fram að Úkraínumenn hafi reynt að skjóta flugskeytum á herstöðvar landsins fyrir þremur dögum en að varnarkerfi þeirra hafi stöðvað flugskeytin í öll skiptin. 

Lukasjenkó færði að vísu ekki fram nein frekari sönnunargögn fyrir þessum staðhæfingum og tók fram að Hvíta-Rússland ætti ekki í stríði við Úkraínu. Landið væri hins vegar reiðubúið til átaka, yrði það fyrir árásum. 

Úkraínski herinn brást ekki við ummælum Lúkasjenskó strax. 

„Þeir eru að ögra okkur,“ er haft eftir Lúkasjenkó á ríkismiðlinum Belta í Hvíta-Rússlandi. „Ég verð að segja ykkur að fyrir um þremur dögum var gerð tilraun til að ráðast á herstöðvar okkar hér í Hvíta-Rússlandi frá Úkraínu.“

„Guði sé lof, þá náðu Pantsir loftvarnarkerfin okkar að koma í veg fyrir öll loftskeyti sem Úkraínski herinn sendi,“ segir Lúkasjenkó.

Lúkasjenkó sagði jafnframt að engir hvít-rússneskir hermenn séu að berjast í stríðinu sem yfirvöld í Moskvu kalla „sérstaka hernaðaraðgerð í Úkraínu“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×