Golf

Evrópumótaröðin afturkallar ekki refsingar þeirra sem gengu til liðs við LIV

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Keith Pelley, forstjóri DP World Tour, hefur svarað þeim kylfingum sem gengu til liðs við LIV-mótaröðina fullum hálsi.
Keith Pelley, forstjóri DP World Tour, hefur svarað þeim kylfingum sem gengu til liðs við LIV-mótaröðina fullum hálsi. Stuart Franklin/Getty Images

Forráðamenn Evrópumótaraðarinnar í golfi, DP World Tour, ætla sér ekki að afturkalla refsingar þeirra kylfinga sem tóku þátt á fyrsta móti sádí-arabísku LIV-mótaraðarinnar á dögunum.

Sextán kylfingar sendu frá sér opið bréf fyrr í dag þar sem þeir hótuðu að sækja Evrópumótaröðina til saka ef forráðamenn hennar myndu ekki afturkalla sektir og keppnisbönn þeirra fyrir að taka þátt á opnunarmóti LIV-mótaraðarinnar.

Eins og sagt var frá hér á Vísi fyrr í dag var hver og einn af þessum sextán kylfingum sektaður hundrað þúsund pund, eða rúmlega sextán milljónir króna, ásamt því að kylfingarnir fá ekki að taka þátt á þremur mótum á vegum Evrópumótaraðarinnar.

Kylfingarnir sendu forráðamönnum Evrópumótaraðarinnar bréf þar sem kallað var eftir því að refsingar þeirra yrðu endurskoðaðar. Keith Pelley, forstjóri Evrópumótaraðarinnar segir hins vegar að í bréfinu hafi ekki verið farið með rétt mál.

„Til fjölmiðla hefur lekið bréf sem okkur barst frá nokkrum kylfingum sem leika á LIV-mótaröðinni. Bréfið inniheldur ýmsar rangfærslur sem ekki er hægt að láta liggja ósvöruðum,“ sagði Pelley í yfirlýsingu sinni fyrr í dag.

„Áður en þeir gengu til liðs við LIV-mótaröðina vissu kylfingarnir að það myndi bera í för með sér afleiðingar ef þeir myndu velja peninga fram yfir keppni. Margir þeirra skildu og sættu sig við það. Eins og einn kylfingur sagði í viðtali fyrr á árinu: „Ef ég verð settur í bann, þá verð ég settur í bann.“ Það er því ekki trúlegt að einhverjir þeirra séu nú hissa á því að við höfum gripið til þeirra aðgerða sem við höfum gert.

Bréf þetta segir að þeim sé annt um Evrópumótaröðina, en greining á þátttökutölum nokkurra af betri kylfingum mótaraðarinnar gefur annað til kynna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×