Erlent

Yngsta fórnar­lambið þrettán ára

Atli Ísleifsson skrifar
Alls fannst 21 maður látinn á Enyobeni Tavern í Austur-London aðfaranótt sunnudagsins.
Alls fannst 21 maður látinn á Enyobeni Tavern í Austur-London aðfaranótt sunnudagsins. EPA

Yngsta fórnarlambið í hópi þeirra sem fundust látin á veitingastað í Austur-London í Suður-Afríku um helgina var þrettán ára. Alls fannst 21 maður látinn á Enyobeni Tavern aðfaranótt sunnudagsins, en hin látnu lágu ýmist á borðum eða á gólfi staðarins.

Þetta staðfestir lögreglustjórinn Bheki Cele í samtali við suður-afríska fjölmiðla. Málið þykir dularfullt í meira lagi, en rannsókn stendur enn yfir á því hvað hafi dregið fólkið til dauða.

Í frétt BBC segir að hin látnu hafi verið á aldrinum þrettán til sautján ára, en lögregla á enn eftir að birta nákvæmari upplýsingar þau sem létust. Fyrstu fréttir af málinu hermdu að hin látnu hafi verið á bilinu átján til tuttugu.

Lágmarksaldur til að drekka áfengi í Suður-Afríku er átján ár, en suður-afrískir fjölmiðlar hafa sagt fréttir af því að ungmennin hafi haldið á staðinn til að fagna próflokum. Ljóst má vera að eigandi staðarins gæti átt yfir höfði sér ákæru þar sem ungmennin hefðu ekki átt að geta sótt staðinn. 

Líkin hafa verið flutt í líkhús þar sem krufning verður gerð. Búið er að útiloka að fólkið hafi troðist undir, en verið er að kanna hvort að eitrun hafi mögulega dregið fólkið til dauða.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×