Erlent

Baldwin ræðir við Allen í beinni á Instagram

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það er óhætt að segja að báðir menn hafi verið á milli tannanna á fólki síðustu misseri.
Það er óhætt að segja að báðir menn hafi verið á milli tannanna á fólki síðustu misseri. epa

Leikarinn Alec Baldwin hefur greint frá því að hann muni taka viðtal við leikstjórann Woody Allen á morgun, sem verður sýnt í beinni útsendingu á Instagram.

„Ég elska þig Woody. Instagram; ég stend með Woody,“ segir Baldwin í myndskeiði sem hann birti til að auglýsa viðtalið.

Allen hefur lítið vilja ræða við fjölmiðla síðustu ár, án efa vegna ásakana ættleiddrar dóttur hans um að hann hafi beitt hana kynferðisofbeldi þegar hún var barn.

HBO birti heimildarmynd um ásakanirnar í fyrra, Allen vs. Farrow, þar sem Dylan Farrow og móðir hennar Mia Farrow fóru yfir málið. Í myndinni var í fyrsta sinn birt myndskeið þar sem Dylan, þá 7 ára, segir frá meintri árás Allen.

Baldwin, sem sætir sjálfur rannsókn fyrir að hafa orðið konu að bana við tökur á nýrri kvikmynd, segist í færslu sinni á Instagram ekki hafa nokkurn áhuga á skoðunum annarra þegar kemur að Allen.

„Ég er AUGLJÓSLEGA einhver sem hefur sínar eigin skoðanir og GÆTI EKKI VERIÐ MEIRA SAMA um vangaveltur annarra. Ef þú ert þeirrar skoðunar að það eigi að rétta yfir mönnum í heimildarmynd á vegum HBO þá er það þitt mál,“ segir leikarinn.

Allen leikstýrði Baldwin í myndinni To Rome with Love.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×