Innlent

Heiður fyrir pólska sam­fé­lagið á Ís­landi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Sylwia segir það mikinn heiður að hafa verið fjallkonan í ár.
Sylwia segir það mikinn heiður að hafa verið fjallkonan í ár. RÚV

Sylwia Zajkowska er fjallkonan árið 2022. Hún flutti ávarp á Austurvelli í dag í tilefni af þjóðhátíðardegi Íslendinga. Sylwia er pólsk og segir það mikinn heiður að hafa fengið að gegna hlutverki fjallkonunnar.

Sylwia ávarpaði þau sem saman voru komin á Austurvelli fyrir hádegi í dag, á hátíðardagskrá Alþingis og forsætisráðuneytisins. Skömmu áður hafði Guðni Th. Jóhannesson ásamt nýstúdentum lagt blómsveig að minnisvarða Jóns Sigurðssonar, auk þess sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti ræðu. 

Sylwia flutti ávarp eftir Brynju Hjálmsdóttur. 

Sylwia er frá Póllandi en býr hér á landi og starfar sem leikkona hjá brúðuleikhúsinu Handbendi. Fréttastofa ræddi við Sylwiu um hlutverkið, og hvaða þýðingu það hafði fyrir hana að vera fjallkonan í ár.

„Ég er mjög ánægð með að vera fyrsta fjallkonan sem er ekki íslensk. Ég veit að þetta er í fyrsta skipti sem þetta gerist. Og ég held að þetta sé líka þýðingarmikið fyrir aðra sem búa hér sem eru ekki íslenskir. Þetta er heiður,“ sagði Sylwia þegar fréttastofa ræddi við hana, að lokinni uppsetningu á leikritinu Heimferð, sem sýnt var í Iðnó í dag. 

Erfitt að segja ekki frá 

„Mér finnst þetta mikilvægt fyrir pólska samfélagið hér og mér finnst þetta heiður fyrir okkur, að fá að vera táknmynd Íslendinga á svona degi. Það er mikil viðurkenning,“ segir Sylwia semhefur búið hér á landi um nokkurt skeið.

„Það kom mér á óvart að fá að gera þetta, ég hef ekki verið lengi á Íslandi og ég vissi ekki af þessari hefð. Þegar ég vissi að ég yrði fjallkonan varð ég mjög spennt, en ég þurfti að halda því leyndu og það var erfitt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×