Golf

DeChambeau nýjasta stórstjarnan til að ganga til liðs við LIV-mótaröðina

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bryson DeChambeau mun leika á LIV-mótaröðinni.
Bryson DeChambeau mun leika á LIV-mótaröðinni. Ben Jared/PGA TOUR via Getty Images

Bryson DeChambeau er nýjasta stórstjarnan innan golfheimsins til að yfirgefa PGA-mótaröðina og ganga til liðs við sádí-arabísku LIV-mótaröðina.

DeChambeau er meðal fremstu kylfinga heims, en ef marka má heimildir Sky Sports hefur honum verið boðið í kringum 100 milljónir dollara fyrir þátttöku sína í LIV-mótaröðinni.

Kylfingurinn gengur til liðs við LIV-mótaröðina þrátt fyrir það að nú fyrir skemmstu hafi PGA-mótaröðin gefið frá sér tilkynningu þess efnis að öll­um nú­ver­andi og framtíðar þátt­tak­end­um í LIV-mótaröðinni verði meinuð þátt­taka á mót­um í PGA-mótaröðinni.

Fyrsta mótið á LIV-mótaröðinni fer fram um þessar mundir á Cent­uri­on Club í Lund­ún­um, en fyrsti hringurinn var leikinn í gær.

DeChambeau tekur þátt á sínu fyrsta móti á LIV-mótaröðinni um næstu mánaðarmót. Áður höfðu stór nöfn á borð við Phil Mickelson og Dustin Johnson yfirgefið PGA-mótaröðina og gengið til liðs við LIV-mótaröðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×