Innlent

KSÍ þurfi að á­­kveða hvort lands­­leikir séu fjöl­­skyldu­við­burðir eða eitt stórt partí

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Bryndís Jónsdóttir er sérfræðingur í forvörnum hjá Heimili og skóla.
Bryndís Jónsdóttir er sérfræðingur í forvörnum hjá Heimili og skóla. einar árnason

Skiptar skoðanir eru um bjórsölu á landsleikjum. Sérfræðingur í forvörnum segir að KSÍ þurfi að ákveða hvort að leikirnir séu fjölskylduviðburðir eða eitt stórt partí.

Bjór var í fyrsta sinn í sögunni seldur á knattspyrnuleik á Laugardalsvelli í gær þegar Ísland tók á móti Albaníu í þjóðadeildinni. Löngu tímabært og eðlilegt skref segja einhverjir en aðrir furða sig yfir samblöndu íþróttar og áfengis. Þeirra á meðal er sérfræðingur í forvörnum.

„Þetta er svona ákvörðun eða stefna sem mér finnst að við þurfum að taka hér. Hvaða ásýnd viljum við hafa á fótboltaleikjum og hvaða hópa viljum við fá til þess að mæta? Viljum við fá fjölskyldurnar, iðkendurna með foreldrum sínum eða viljum við hafa þetta bara eitt stórt partí?“ spyr Bryndís Jónsdóttir, sérfræðingur í forvörnum hjá Heimili og skóla.

Sjálf mætir Bryndís reglulega á leiki á Laugardalsvelli og segir að hingað til hafi gestir vel getað skemmt sér án áfengis.

„Og það var talað um að salan hefði tekið kipp á miðum eftir að auglýst var að hægt væri að kaupa bjór. Ég velti því fyrir mér: Ef þú þarft bjór til þess að fara á fótboltaleik, ertu þá að fara á réttum forsendum?“

Fjölskylduviðburður eða partí?

Bjórsala á íþróttaleikjum er þó ekki ný af nálinni. Það þekkist vel hérlendis og erlendis að vallargestir skáli í bjór til að fagna eða drekki sorgum sínum. Áfengi er einnig selt í leikhúsum og á öðrum menningarviðburðum, en Bryndís segir að umhverfið í stúkunni á landsleikjum verði að vera fjölskylduvænt ef hvetja eigi fjölskyldur, unga iðkendur og börn til þess að mæta á leiki.

„Þá viljum við forðast það að þau séu að verða vitni að ofurölvuðu fólki veltast um og vera jafnvel til vandræða. Mér skilst reyndar að það hafi ekki verið málið í gær en það var líka mánudagskvöld og vinnudagur daginn eftir þannig maður veit ekki hvernig þetta væri ef það væri um helgi.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×