Fótbolti

Aftur glutra Frakkar forystu sinni

Atli Arason skrifar
Andrej Kramarić skorar úr vítaspyrnunni.
Andrej Kramarić skorar úr vítaspyrnunni. Getty Images

Liðin sem léku til úrslita á HM 2018, Frakkland og Króatía, endurtóku leikinn í Þjóðadeildinni í kvöld og gerðu 1-1 jafntefli. Leikið var í Split í Króatíu.

Dider Deschamps, þjálfari Frakklands, gerði 10 breytingar á byrjunarliðinu sínu sem tapaði 1-2 gegn Danmörku í síðasta leik. Aðeins Aurélien Tchouaméni hélt sínu sæti í liði Frakklands í kvöld.

Fyrri hálfleikur var markalaus en þó ekki tíðindalítill. Frakkar skoruðu mark sem síðar var dæmt af vegna rangstöðu. Presnel Kimpembe, leikmaður Frakklands, bjargaði því að liðið lenti undir með frábærum varnarleik og Domagoj Vida, leikmaður Króatíu, var stálheppinn að vera ekki rekin útaf eftir tæklingu á Christopher Nkunku.

Stuttu eftir hálfleik kom þó fyrsta markið þegar Wissam Ben Yedder á nákvæma sendingu í gegnum vörn Króatíu á Adrien Rabiot sem kláraði færið sitt af strakri prýði og kom Frakklandi marki yfir á 52. mínútu.

Á 83. mínútu á Jonathan Clauss, leikmaður Frakklands, klaufalega tæklingu inn í vítateig á varamanninum Andrej Kramarić og vítaspyrna dæmd. Kramarić tók spyrnuna sjálfur og skoraði framhjá Mike Maignan í marki Frakklands. Bæði lið fengu dauðafæri til að stela sigrinum á síðustu mínútum leiksins en náðu ekki að nýta tækifærin sín.

Þegar tvær umferðir eru búnar er Frakkland áfram í þriðja sæti 1. riðils og Króatía er í því fjórða. Bæði lið eru með eitt stig eftir tap í fyrstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×