Erlent

Selenskí að vígstöðvunum á meðan harðir bardagar geisa

Kjartan Kjartansson skrifar
Stund milli stríða hjá úkraínskum hermanni í Donetsk-héraði í Austur-Úkraínu.
Stund milli stríða hjá úkraínskum hermanni í Donetsk-héraði í Austur-Úkraínu. AP/Bernat Armangue

Harðir bardagar geisa nú við borgina Severodonetsk í austurhluta Úkraínu. Volodímír Selenskí, forseti Úkraínu, heimsótti hermenn á austurvígstöðvunum til að stappa í þá stálinu í gær.

Úkraínuher segir að hermenn sínir hafi orðið fyrir sprengjuvörpu- og stórskotaliðsárásum við Severodonetsk. Rússneskir hermenn skjóti nú á Úkraínumenn við alla víglínuna í austurhluta landsins. Herinn segist hafa hrundið sjö árásum Rússa í Donbas-héraði síðasta sólarhringinn.

Þá telur breska varnarmálaráðuneytið að Rússar sækir nú að borginni Slovyansk í nágrenni Severodonetsk til að reyna að króa úkraínskra hermenn inni.

Héraðsstjóri Luhansk segir að staða Úkraínuhers í Severodonetsk hafi versnað aðeins eftir að hann endurheimti um helming borgarinnar úr höndum Rússa á föstudag.

„Hörðustu bardagarnir eru í Severodonetsk. Hraðir bardagar eiga sér nú stað. Varnarliði okkar tókst að gera gagnsókn um stund, það frelsaði næstum hálfa borgina en nú hefur staðan versnað svolítið fyrir okkur aftur,“ sagði Serhiy Haidai, héraðsstjóri, í morgun.

Rússnesk flugskeyti hæfðu lestarmannvirki í höfuðborginni Kænugarði snemma í gærmorgun. Talið er að sú árás hafi átt að trufla flutninga vestræna hernaðartóla til Úkraínu.

Selenskí heimsótti tvær borgir í Donbas nærri vígstöðvunum í gær, Lysychansk og Soledar sem eru sagðar verða mikilvæg vígi ef Severodonetsk fellur. Sagðist hann stoltur af öllum þeim sem hann hitti og tók í höndina á. Forsetinn hefur sjaldan yfirgefið höfuðborgina frá því að innrás Rússa hófst 24. febrúar.

„Þið verðskuldið öll sigur, það er það mikilvægasta, en ekki hvað sem það kostar,“ sagði Selenskí við úkraínska hermenn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×