Innlent

Sökk vegna fannfergis í miklu snjóveðri

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Báturinn sökk í Hafnarfjarðarhöfn í febrúar.
Báturinn sökk í Hafnarfjarðarhöfn í febrúar. Vísir/Sigurjón

Talið er að báturinn Sigursæll KÓ 8 hafi sokkið í Hafnarfjarðarhöfn í febrúar vegna mikils fannfergis.

Báturinn sökk í höfnina þann 15. febrúar síðastliðinn en daginn áður hafði snjóað gríðarlega mikið á höfuðborgarsvæðinu.

Raunar svo mikið að Vísir hélt úti sérstakri snjóvakt til að fylgjast með vendingum dagsins vegna veðursins.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa tók atvikið fyrir á fundi hennar í gær. Í skýrslu vegna málsins kemur fram að leki hafi komið að bátnum þar sem hann lá mannlaus við bryggju.

Þegar að var komið var báturinn sokkinn. Köfunarþjónusta var fengin til að koma bátnum á flot.

Við rannsókn málsins kom í ljós að mikið fannfergi hafði verið á höfuðborgarsvæðinu. Taldi eigandinn að báturinn hafi sigið aðra hliðina undan þunganum og tekið inn á sig sjó.

Sagðist hann hafa verið í bátnum tveimur dögum áður og þá lensan hann og mokað af honum snjó. Þá kom fram að blautpúst bátsins reyndist vera óþétt við síðuna.

Rannsóknarnefndin telur ekki tilefni til að rannsaka málið frekar.


Tengdar fréttir

Snjóvaktin: Allt á kafi í snjó og gular viðvarnir

Íbúar á Suðvesturhorni landsins vöknuðu upp við mikið fannfergi í morgun og lentu margir hverjir í mesta basli með að komast út úr hverfum sínum í morgun. Snjó hefur kyngt niður í tæpan sólarhring og áfram spáð snjókomu í bland við töluvert hvassvirði.

Mokuðu bílinn út með „kúst og fæjó“

Íbúar á Suðvesturlandi voru margir hverjir í stökustu vandræðum með að komast til vinnu vegna snjóþunga og mátti sjá fólk beita ýmsum aðferðum til þess að losa bíla. Búast má viðað fólk muni lenda í vandræðum í húsagötum sínum næstu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×