Viðskipti innlent

Mjólkur­vörur Örnu á Banda­ríkja­markað

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Hálfdán Óskarsson, framkvæmdastjóri Örnu ásamt Örnu Hálfdánardóttur, markaðsstjóra Örnu og Gunnari Birgissyni, framkvæmdastjóra Reykjavik Creamery.
Hálfdán Óskarsson, framkvæmdastjóri Örnu ásamt Örnu Hálfdánardóttur, markaðsstjóra Örnu og Gunnari Birgissyni, framkvæmdastjóra Reykjavik Creamery. Aðsend

Forsvarsmenn Örnu mjólkurvinnslu í Bolungarvík skrifuðu nýverið undir viljayfirlýsingu með forsvarsmönnum Reykjavík Creamery, mjólkurvinnslu í Pennsylvaníu, um samstarf milli fyrirtækjanna um framleiðslu og sölu á mjólkurvörum Örnu í Bandaríkjunum.

Í sameiginlegri fréttatilkynningu fyrirtækjanna er greint frá því að vörurnar verði fluttar út frá Íslandi í fyrstu en síðar muni Reykjavík Creamery framleiða vörurnar í nýrri verksmiðju sinni í Pennsylvaníu.

Mjólkurvörurnar sem um ræðir eru próteinrík hafrajógúrt sem Arna hyggst setja á markað á Íslandi í sumar og laktósafríar mjólkurvörur sem eru þegar á markaði hérlendis.

Að sögn Hálfdáns Óskarssonar, framkvæmdastjóra Örnu, hefur fyrirtækið fengið fjölmargar fyrirspurnir í gegnum tíðina frá aðilum sem hafa lýst yfir áhuga á að selja vörur Örnu í Bandaríkjunum. Þau hafi hins vegar ekki talið það raunhæft nema með því að finna traustan framleiðanda þar í landi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×