Innlent

Stað­festi gæslu­varð­hald vegna brota gegn sex­tán stúlkum

Árni Sæberg skrifar
Maðurinn er sakaður um að hafa haft samband við fjölda ólögráða stúlkna á samfélagsmiðlinum Snapchat og viðhaft við þær samskipti kynferðislegs eðlis.
Maðurinn er sakaður um að hafa haft samband við fjölda ólögráða stúlkna á samfélagsmiðlinum Snapchat og viðhaft við þær samskipti kynferðislegs eðlis.

Landsréttur hefur staðfest úrskurð um áframhaldandi gæsluvarðhald manns á sjötugsaldri sem ákærður hefur verið fyrir kynferðisbrot gegn sextán stúlkum. Sú yngsta er aðeins ellefu ára gömul.

Maðurinn hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 9. desember síðastliðnum og Landsréttur hefur nú staðfest úrskurð héraðsdóms þess efnis að hann sæti gæsluvarðhaldi til 20. júní næstkomandi. Maðurinn kærði úrskurðinn og hefur ætíð neitað sök.

Hann var fyrst handtekinn í júní árið 2021 fyrir að hafa sett sig í samband við fimm ólögráða stúlkur í gegnum samskiptamiðilinn Snapchat.

Maðurinn hefur áður komið við sögu lögreglu, bæði hér á landi og erlendis. Hann var einn af þeim sem reyndu að hitta þrettán ára gamla tálbeitu í fréttaskýringaþættingum Kompás árið 2006.

Þann 2. mars síðastliðinn var maðurinn svo ákærður fyrir kynferðisbrot gegn tíu stúlkum með því að hafa sent þeim skilaboð af kynferðislegum toga gegnum samskiptaforrit. Þá var gefin út önnur ákæra á hendur honum þann 29. sama mánaðar fyrir brot gegn sjö stúlkum. Ákært var fyrir brot gegn einni stúlku í báðum ákærum og eru meint fórnarlömb mannsins því sextán talsins.

Í staðfestum úrskurði héraðsdóms segir að rökstuddur grunur sé um að maðurinn hafi gerst sekur um þau brot sem hann er ákærður fyrir og að ætla megi að maðurinn haldi brotum sínum áfram verði hann látinn laus.

Úrskurð Landsréttar má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×