Innlent

Jarðskjálftahrina í gangi á Reykjanesi

Kjartan Kjartansson skrifar
Skjálftanir hafa mælst norðan og vestan við Grindavík á Reykjanesi.
Skjálftanir hafa mælst norðan og vestan við Grindavík á Reykjanesi. Vísir/Egill

Fimm jarðskjálfar stærri en þrír að stærð hafa mælst á Reykjanesi frá því í hádeginu. Sá stærsti þeirra mældist 4,1 nú um miðjan dag.

Skjálftarnir fimm hafa allir átt upptök sína bilinu við Eldvörp, fimm til sex kílómetra norðvestur af Grindavík. Sá stærsti þeirra var 4,1 klukkan 14:17 samkvæmt vefsíðu Veðurstofu Íslands.

Bryndís Ýr Gísladóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, segir að jarðskjálftahrina sé nú í gangi á Reykanesi. Skjálftarnir nú eru nokkuð vestan við Fagradalsfjall þar sem gaus í fyrra.

„Það hefur verið mikil virkni á Reykjanesinu síðustu tvö ár eins og við vitum. Það heldur bara áfram,“ segir hún.

Snarpur jarðskjálfti, 4,8 að stærð, mældist í Þrengslunum síðdegis í gær. Fannst hann víða, meðal annars á höfuðborgarsvæðinu. Erfitt er þó að segja hvort hann tengist hrinunni nú.

„Það getur tengst að einhverju leyti að út frá stærri skjálfta svona nálægt sé að losna spenna á öðru svæði. Svo þarf heldu ekki að vera að þetta tengist,“ segir Bryndís Ýr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×