Viðskipti innlent

Ráðherra hefur til 10. júní til að ákveða sig varðandi Fjaðrárgljúfur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fjaðrárgljúfur hefur notið mikilla vinsælda meðal ferðamanna undanfarin ár.
Fjaðrárgljúfur hefur notið mikilla vinsælda meðal ferðamanna undanfarin ár. Unsplash/Martin Sanchez

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur til skoðunar forkaupsrétt ríkisins á jörðinni Heiði í Skaftárhreppi sem Fjaðrárgljúfur tilheyrir. Ráðherra ætlar ekki að tjá sig um málið að svo stöddu.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að að eigendur hefðu samþykkt kauptilboð í jörðina. Magnús Leópoldsson fasteignasali tjáði blaðinu að málið væri í ferli. Heimildir blaðsins herma að verðmiðinn sé á milli 300 og 350 milljónir króna og væntanlegur kaupandi sé Íslendingur sem starfi í ferðaþjónustu.

Fjaðrárgljúfur er á meðal vinsælli ferðamannastaða á Suðurlandi. Umhverfisstofnun hefur annast það og lokaði aðgangi að því um tíma árið 2019 til að vernda gljúfrið fyrir ágangi ferðamanna sem streymdu þangað eftir að kanadíski skallapopparinn Justin Bieber birti myndir af sér við það.

Ríkið á forkaupsrétt á gljúfrinu en í skriflegu svari frá Önnu Sigríði Einarsdóttur, upplýsingafulltrúa í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, segir að ákvörðun ríkisins þurfi að liggja fyrir 10. júní lögum samkvæmt.

Málið sé í vinnslu í ráðuneytinu og ráðherra muni ekki tjá sig um það að svo stöddu.


Tengdar fréttir

Kaflar að Fjaðrárglúfri og Hvítserk fá bundið slitlag

Vegagerðin hefur óskað eftir tilboðum í endurbyggingu tveggja kílómetra vegarkafla og lagningu bundins slitlags milli Hunkubakka og Fjaðrárgljúfurs í Skaftárhreppi. Áður var búið að klæða eins kílómetra kafla frá þjóðvegi eitt að Hunkubökkum. Þegar verkinu lýkur munu vegafarendur á hringveginum því geta komist á malbiki alla leið að þessum vinsæla ferðamannastað, sem er um tíu kílómetra vestan Kirkjubæjarklausturs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×