Viðskipti innlent

Opna verslun sína í Borgar­túni á morgun

Atli Ísleifsson skrifar
Krónan opnar í húsnæði í Borgartúni þar sem Vínbúðin, Fylgifiskar og Blackbox voru áður til húsa.
Krónan opnar í húsnæði í Borgartúni þar sem Vínbúðin, Fylgifiskar og Blackbox voru áður til húsa. Krónan

Krónan mun opna nýja 700 fermetra matvöruverslun sína í Borgartúni á morgun, í húsnæði þar sem Vínbúðin, Fylgifiskar og Blackbox voru áður til húsa.

Í tilkynningu kemur fram að um sé að ræða 25. verslun Krónuverslun landsins. Þar segir að sérstök áhersla verði lögð sérstök áhersla á ferskvöru og gott úrval af tilbúnum réttum með starfsfólk fyrirtækja á svæðinu í huga.

Ennfremur segir að við hönnun verslunar hafi umhverfismarkmið verið höfð að leiðarljósi og verður verslunin meðal annars með lokaða kæla sem skili 25 til 30 prósent orkusparnaði, auk LED lýsingar sem spari orkunotkun.

Haft er eftir Ástu Sigríði Fjeldsted, framkvæmdastjóra Krónunnar, að það sé spennandi og ánægjulegt að Krónan skuli aftur vera mætt í 105 Reykjavík, enda iði hverfið af mannlífi og hafi verið í mikilli uppbyggingu síðustu ár. „Við ætlum að taka dagana snemma í Borgartúninu og opnum klukkan 8 alla daga sem ætti að henta vel fyrir fólk á leið til vinnu. Svo verður að sjálfsögðu boðið upp á sjálfsafgreiðslulausnina Skannað og skundað í hinni nýju verslun sem mun eflaust koma sér vel fyrir fólk á hraðferð sem vill sleppa röðinni við afgreiðslukassana,“ segir Ásta Sigríður. 

Opnunartími verslunarinnar er frá klukkan 8 til 20 alla daga vikunnar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×