Innlent

Lenti í snjóflóði í Hlíðarfjalli

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Björgunarsveitir voru kallaður út á Akureyri.
Björgunarsveitir voru kallaður út á Akureyri. Vísir/Vilhelm

Björgunarsveitir á Akureyri voru kallaður út laust eftir klukkan eitt í dag eftir að skíðamaður lenti í snjóflóði fyrir ofan skíðasvæðið í Hlíðarfjalli. Skíðamaðurinn grófst ekki í flóðinu en slasaðist.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra þar sem segir að þrír hafi verið í för með manninum sem lenti í flóðinu. Gátu þeir komið honum til aðstoðar.

Var aðgerðastjórn virkjuð á Akureyri og björgunarsveitin Súlur á Akureyri kölluð út til aðstoðar öðrum viðbragðsaðilum.

Með aðstoð starfsmanna í Hlíðarfjalli voru sjúkraflutingamenn fluttir á slysavettvang og bjuggu þeir um hinn slasaða til flutnings sem var síðan fluttur á Sjúkrahúsið á Akureyri til aðhlynningar. Ekki er vitað um ástand hins slasaða að svo stöddu, að því er segir í færslu lögreglunnar.

Hvetur hún þá sem ætla að njóta útivistar til fjalla til að huga vel að aðstæðum hvað snjóalög varðar og snjóflóðahættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×