Viðskipti innlent

Nova hagnaðist um 1,5 milljarða

Eiður Þór Árnason skrifar
Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova.
Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova. Aðsend

Fjarskiptafélagið Nova hagnaðist um tæpa 1,5 milljarða króna árið 2021 eftir skatta. Tekjuvöxtur á árinu fyrir einskiptisliði var 7% miðað við árið 2020.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 3,2 milljörðum króna fyrir einskiptisliði samanborið við 2,8 milljarða króna árið 2020. Félagið hagnaðist um 1,1 milljarð króna árið 2020.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nova en þar segir að hlutafé félagsins hafi verið aukið um 3,5 milljarða króna í apríl síðastliðnum. Markmiðið með aukningunni sé að styðja frekar við fjárfestingar í 5G-fjarskiptakerfi Nova og styrkja efnahagsreikning félagsins. Þetta birtist í lækkun vaxtaberandi skulda og auknu handbæru fé.

Áhrif hlutafjáraukningarinnar á efnahagsreikning Nova.

Undirbúa skráningu á markað

Eiginfjárhlutfall Nova verður tæp 34% eftir hlutafjáraukninguna og lækka skuldsetningarhlutföll. Að sögn stjórnenda hafa viðskiptavinir félagsins aldrei verið fleiri og Nova fjárfest fyrir um 12,0% til 13,5% af tekjum í innviðum sínum á síðustu árum.

Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova, segir að góð afkoma ásamt hlutafjáraukningu muni gera fyrirtækinu kleift að leggja áfram áherslu á fjárfestingar í virkum innviðum, meðal annars uppbyggingu 5G.

„Nova hefur verið í forystu í innleiðingu á nýjustu tækni í fjarskiptum. Einstakur hópur starfsfólks sem leggur sig fram við að veita góða þjónustu, ánægja viðskiptavina og forysta í tæknibreytingum hefur skilað Nova þessum rekstrarárangri.“

Áður hefur verið greint frá því að Nova undirbúi skráningu hlutabréfa félagsins á Aðalmarkað Nasdaq Iceland en stefnt er að skráningu á fyrri helmingi þessa árs.


Tengdar fréttir

Nova undir­býr skráningu á markað

Nova hefur ákveðið að hefja undirbúning á skráningu hlutabréfa félagsins á Aðalmarkað Nasdaq Iceland. Stefnt að skráningu á fyrri helmingi þessa árs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×