Fótbolti

Brutu 200 marka múrinn | Tveimur leikjum frá fullu húsi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alexia Putellas var meðal markaskorara í kvöld.
Alexia Putellas var meðal markaskorara í kvöld. Twitter@FCBfemeni

Spánar- og Evrópumeistarar Barcelona eru hársbreidd frá því að endurtaka leikinn á síðustu leiktíð þegar liðið vann þrennuna. Liðið er komið í úrslit Meistaradeildar Evrópu og þá er það aðeins tveimur leikjum frá fullu húsi í La Liga, spænsku úrvalsdeildinni.

Barcelona tapaði nokkuð óvænt fyrir Sveindísi Jane Jónsdóttur og stöllum hennar í Wolfsburg er liðin mættust í síðari leik undanúrslita Meistaradeildar Evrópu. Lokatölur það kvöldið 2-0 en þökk sé 5-1 sigri á heimavelli fór Barcelona áfram. Það virðist ætla að vera eina tap Barcelona á leiktíðinni.

Erfitt er að bera saman bækur miðað við síðasta tímabil á Spáni þar sem liðum var fækkað í efstu deild kvenna. Að því sögðu er Barcelona með 28 sigra í 28 leikjum eftir 5-1 sigur á Sevilla í kvöld. Sigurinn þýðir einnig að Barcelona hefur brotið 200 marka múrinn á leiktíðinni.

Eins ótrúlega og það hljómar voru Börsungar 0-1 undir í hálfleik í kvöld en fimm mörk í síðari hálfleik sáu til þess að vonin um hið fullkomna tímabil lifir enn.

Claudia Pina jafnaði metin, Asisat Lamina Oshoala kom Barcelona yfir og Alexia Putellas, Mariona Caldentey og Jennifer Hermoso kláruðu dæmið.

Barcelona vann eins og áður sagði þrennuna á síðustu leiktíð og getur endurtekið leikinn ár. Liðið stefnir á að klára spænsku deildina með fullt hús stiga en aðeins tvær umferðir eru eftir, Börsungar eru í undanúrslitum spænsku bikarkeppninnar og þá mætir liðið Lyon í úrslitum Meistaradeildar Evrópu þann 21. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×