Fótbolti

Er að vinna deildina með fjórtán stigum en ekki tilnefndur sem stjóri ársins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mauricio Pochettino stýrir liði Paris Saint Germain þar sem það þykir sjálfsagður hlutir að verða franskur meistari.
Mauricio Pochettino stýrir liði Paris Saint Germain þar sem það þykir sjálfsagður hlutir að verða franskur meistari. EPA-EFE/CHRISTOPHE PETIT TESSON

Það er ekki nóg fyrir Argentínumanninn Mauricio Pochettino að rústa frönsku deildinni til að fá tilnefningu sem knattspyrnustjóri ársins í Ligue 1 í Frakklandi.

Pochettino náði ekki að koma Paris Saint Germain liðinu í gegnum sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar en heima fyrir er liðið búið að tryggja sér franska meistaratitilinn fyrir löngu. PSG er eins og er með fjórtán stiga forskot á toppnum.

Frammistaða Lionel Messi hefur verið mikið gagnrýnd og þá hafa stuðningsmenn Parísarliðsins baulað á sína eigin leikmenn, líka þegar þeir tryggðu sér franska meistaratitilinn. Jú með slíkt stórstjörnulið er pressan mikil og það lítur út fyrir að vonbrigðin í Evrópu kosti argentínska stjórann sætið meðal þeirra tilnefndu.

Það er UNFP, samtök atvinnufótboltamanna í Frakklandi, sem standa fyrir þessu árlega kjöri og meðal annars er kosinn knattspyrnustjóri ársins. Það eru knattspyrnustjórarnir sjálfri sem kjósa.

Það er ekki eins og hópur þeirra sem tilnefndir eru sé lítill því alls eru fimm stjórar tilnefndir.

Þeir sem koma til greina eru Christophe Galtier hjá OGC Nice, Bruno Genesio hjá Rennes, Antoine Kombouare hjá Nantes, Julien Stephan hjá Strasbourg og Jorge Sampaoli hjá Olympique de Marseille.

PSG er með fjórtán stigum meira en Marseille sem er í öðru sæti. Rennes er í þriðja sæti, Nice er í fimmta sætinu, Strasbourg er í því sjötta og Nantes er bara í níunda sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×