Erlent

Segir Rússa geta ráðist inn í fleiri Evrópu­lönd

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Zelensky við daglegt ávarp sitt til úkraínsku þjóðarinnar og heimsbyggðarinnar í gær.
Zelensky við daglegt ávarp sitt til úkraínsku þjóðarinnar og heimsbyggðarinnar í gær. ap

Bretar ætla að opna aftur sendi­ráð sitt í Kænu­garði, höfuð­borg Úkraínu, og munu að­stoða Pól­verja við að gefa Úkraínu­mönnum skrið­dreka. For­seti Úkraínu varar Vestur­lönd við því að Rússar ætli sér að ráðast inn í fleiri lönd í álfunni.

Rússum hefur orðið lítið á­gengt í hernaði sínum á Donbas-svæðinu í austur­hluta Úkraínu síðasta sólar­hringinn.

Volodymyr Zelen­sky, for­seti Úkraínu, sagði í dag­legu á­varpi sínu í gær að Rússar hygðust ná undir sig öllum suður­hluta landsins. Inn­rás Rússa í Úkraínu væri að­eins byrjunin og sagði Zelen­sky þá ætla sér að ráðast inn í önnur Evrópu­lönd í fram­haldinu. 

Frétta­stofa fylgist með nýjustu vendingum í Úkraínu í beinni í vaktinni hér að neðan:

Zelen­sky hefur í­trekað beðið vest­rænar þjóðir um beina að­stoð með lið­styrk í stríðinu gegn Rússum.

Þetta hafa NATO-ríkin ekki viljað gera af ótta við að út brjótist alls­herjar­styrj­öld í Evrópu en Bretar til­kynntu það í gær að þeir ætluðu sér að stíga skrefinu lengra en þeir hafa gert hingað til og senda skrið­dreka til Pól­lands. Pól­verjar geta þannig gefið ná­grönnum sínum í austri sína skrið­dreka án þess að veikja sínar her­sveitir.

„Við erum þakk­lát öllum sam­herjum okkar sem viðrast loks hafa heyrt í okkur og veita okkur þá að­stoð sem við þurfum. Við vitum fyrir víst að þessi vopn verða notuð til að bjarga þúsundum manns­lífa,“ sagði Zelen­sky meðal annars í gær.

Heimir Már Pétursson, fréttamaður okkar, fór yfir stöðuna á átökunum í Kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær:

Einblína á viðkvæma hópa

Meira en fimm milljónir eru nú á flótta um Evrópu vegna stríðsins. Aldrei hafa fleiri flótta­menn komið hingað til lands í einu og síðustu vikurnar en þeir sem koma frá Úkraínu eru orðnir rúm­lega 830 talsins.

Ríkis­stjórnin á­kvað á fundi sínum í gær að ein­blína sér­stak­lega á við­kvæma hópa á næstunni.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.Vísir/Vilhelm

„Þar er verið að horfa til þess að taka á móti allt að 100 manns frá Mol­dóvu. Mol­dóva er auð­vitað búin að taka á móti mjög mörgu fólki frá Úkraínu núna og hefur sent heims­byggðinni á­kall um að styðja við þau í því,“ segir Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra.

Einnig var sam­þykkt að taka á móti fimm til tíu fötluðum börnum og fjöl­skyldum þeirra sem hafa flúið Úkraínu og eru nú í stödd í Pól­landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×