Viðskipti innlent

Fyrrverandi starfsmenn Bensinlaus.is saka stjórnendur um svik

Hólmfríður Gísladóttir skrifar

Fyrrverandi starfsmenn bílasölunnar Bensinlaus.is saka æðstu stjórnendur fyrirtæksins um að selja bifreiðar sem þeir vita að eru ekki til og ellilífeyrisþegi sem greiddi nær 8 milljónir fyrir nýjan Ford Mustang fyrir þremur mánuðum, hefur hvorki fengið bíl né svör.

Frá þessu greinir Fréttablaðið og hefur eftir starfsmönnunum fyrrverandi að um sé að ræða stórfelld og alvarleg svik. 

„Bílasalarnir svara ekki í síma og munu núna vera komnir til Marbella á Spáni,“ segir Jóhannes Þór Jóhannesson, sem situr eftir með sárt ennið eftir viðskipti sín við Bensinlaus.is. Hann er komið með lögmann í málið, sem hefur jafnframt verið tilkynnt til lögreglu.

Jóhanna Pálsdóttir, fyrrverandi innkaupastjóri hjá bílasölunni, segir vitað að stjórnendur hennar hafi sýnt viðskiptavinum verksmiðjupantanir sem engin fótur sé fyrir. Þá segir Gísli Þór Gíslason, fyrrverandi sölustjóri, að hluti svikanna virðist vera að seinka ítrekað afhendingu bíla hér á landi.

„Ég hef staðfestar heimildir fyrir því að bílar eins og Jóhannesar Þórs sem áttu að vera á hafnarkantinum í Bandaríkjunum og biðu lestunar um borð í skip Eimskips, að sögn, voru ekki á staðnum,“ hefur Fréttablaðið eftir Gísla Þór. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×