Erlent

Ætlar ekki að gefa eftir landsvæði fyrir frið

Samúel Karl Ólason skrifar
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu.
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu. EPA/SERGEY DOLZHENKO

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, segir að ríkið muni ekki láta Rússa fá landsvæði í austurhluta Úkraínu í skiptum fyrir frið. Hann segir Rússum ekki treystandi til að standa við nokkuð samkomulag og að Úkraínumenn hefðu enga ástæðu til að trúa því að Rússar myndu ekki gera aðra atlögu að Kænugarði í framtíðinni.

Þetta sagði forsetinn í viðtali við CNN sem birt var nú í morgun.

Hann sagði Úkraínumenn hvorki vilja landsvæði annarra, né muni þeir láta eigin landsvæði af hendi.

Fréttamaðurinn Jake Tapper spurði Selenskí meðal annars út í átökin í Donbas og það hvort Úkraínumenn gætu varist árásum Rússa þar.

Selenskí sagði það gífurlega mikilvægt fyrir Úkraínumenn að standast sóknina og það gæti haft áhrif á allt stríðið.

Þegar Rússar réðust inn í Úkraínu árið 2014 og innlimuðu Krímskaga gerðu þeir einnig árás með aðskilnaðarsinnum í Donbas. Þeir náðu upprunalega góðum árangri en voru seinna meir reknir nokkuð afturábak. Víglínurnar breyttust svo lítið í gegnum árin, þar til Rússar gerðu innrás aftur.

Sjá einnig: Taldir ætla að króa fjórðung úkraínska hersins af í Donbas

Skömmu fyrir innrásina í febrúar lýsti Vladimír Pútín, forseti Rússlands, því yfir að Rússland viðurkenndi yfirráðasvæði tveggja fylkinga aðskilnaðarsinna í Donbas sem sjálfstæð lýðveldi. Þau kallast Donetsko og Luhansk og Pútín lýsti því yfir að yfirráðasvæði þessara lýðvelda ætti að vera allt Donbas-hérað. Aðskilnaðarsinnarnir stjórnuðu þó einungis um þriðjungi héraðsins.

Ríkisstjórn Selenskís áætlar að um 2.500 til þrjú þúsund úkraínskir hermenn hafi fallið í átökum við Rússa. Þá er áætlað að um tuttugu þúsund rússneskir hermenn hafi fallið.

Herdeildirnar í Donbas hafa átt í átökum nánast samfleytt í átta ár og hafa fengið umfangsmikla þjálfun frá Bandaríkjamönnum, Bretum og Kanadamönnum. Þá hafa þeir haft átta ár til að undirbúa varnir sínar og eru taldir í góðum varnarstöðum.

Eftir að Rússar hörfuðu frá Kænugarði hafa þeir lagt mikið kapp á að koma hermönnum þaðan á víglínurnar í austurhluta Úkraínu. Úkraínumenn hafa einnig sent liðsauka til austurs en segja þörf á fleiri og betri vopnum. Þau þurfi að berast eins fljótt og hægt sé.

Selenskí sagði hermennina í Donbas vera bestu hermenn Úkraínu og að Rússar vildu umkringja þá og sigra. Úkraínumenn gætu ekki látið það gerast.

„Það versta sem ég hef séð á ævi minni“

Selenskí var einnig spurður út í myndband af úkraínskri konu sem fann lík sonar síns í brunni í norðurhluta Úkraínu og það hvernig það væri fyrir hann að sjá myndbönd sem þessi og heyra af ódæðum sem þessum.

Hann sagði þetta vera það versta sem hann hefði séð. Sem faðir gæti hann ekki ímyndað sér það sem umrædd kona og aðrir foreldrar hafi gengið í gegnum að undanförnu.

„Ég get ekki horft á þetta sem faðir vegna þess að það eina sem maður vill eftir það er hefnd. Að drepa. Ég þarf að horfa á þetta sem forseti ríkis þar sem fjölmargir hafa dáið og misst ástvini.  Það eru milljónir manna sem vilja lifa.“ 

Líf Úkraínumanna séu einskis virði í Kreml

Selenskí var spurður út í það hvort hann hefði áhyggjur af því að Pútín væri tilbúinn til að beita kjarnorkuvopnum í Úkraínu. Hann sagði það koma til greina, eins og hann hefur sagt áður.

Hann sagði að allur heimurinn þyrfti að undirbúa sig fyrir það, því líf Úkraínumanna væri einskis virði í augum ráðamanna í Kreml.

Selenskí sagði engan hafa búist við innrás Rússa árið 2014. Engan hafa búist við innrás Rússa 2022 og engan hafa búist við því að rússneskir hermenn færu að skjóta almenning út á götum bæja og borga Úkraínu.

Hann sagði ráðamenn í Rússlandi hafa sagt að notkun efnavopna og kjarnorkuvopna kæmi til greina. Þetta fólk væri ekki traustsins vert og þau gætu vel notað kjarnorkuvopn.

Tugir þúsunda fluttir til Rússlands

Selenskí sagði ástandið í Maríupól vera mjög erfitt. Enginn hefði hugmynd um hve margir væru dánir í borginni, sem Rússar hafa setið um og gert árásir á frá því í upphafi innrásarinnar. Einnig væri lítið vitað um þá íbúa sem eru þar enn.

Hann sagði Rússa þó hafa þvingað tugi þúsunda af íbúum Maríupól til að fara til Rússlands og þar á meðal væru þúsundir barna.

„Við viljum vita hvað kom fyrir þau,“ sagði Selenskí.

Tapper spurði Selenskí einnig út í möguleikann á því að hann myndi ekki lifa þetta stríð af og hvernig hann vildi að úkraínska þjóðin myndi muna eftir sér. Hvernig hann vonaðist til þess að börn hans myndu muna eftir honum ef allt færi á versta veg.

Selenskí sagðist ekki vilja vera talinn hetja. Hann sé bara venjulegur maður sem elski fjölskyldu sína og móðurland.


Tengdar fréttir

Segja þetta vera sjóliða flaggskipsins Moskvu

Rússneska varnarmálaráðuneytið hefur birt myndir af sjóliðum sem þeir segja að hafi mannað beitiskipið Moskvu, flaggskip rússneska flotans, sem sökk í síðustu viku.

Vaktin: Pútín telur sig vera að vinna stríðið

Svo virðist sem að Úkraínumenn hafi ekki orðið við kröfum Rússa um að síðustu varnarliðsmenn borgarinnar Maríupol myndu yfirgefa borgina. Rússar höfðu veitt varnarliðinu frest í nótt til að yfirgefa síðasta vígið, stálverksmiðju við höfnina í borginni. Fresturinn rann út í morgun án viðbragða frá Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×