Erlent

Tólf slasaðir eftir skot­á­rás í verslunar­mið­stöð í Suður Karó­línu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Hópur lögreglumanna sést hér utan við verslunarmiðstöðina í kjölfar árásarinnar í kvöld.
Hópur lögreglumanna sést hér utan við verslunarmiðstöðina í kjölfar árásarinnar í kvöld. Vísir/AP

Tólf eru slasaðir eftir skotárás í verslunarmiðstöðinni Columbiana Centre í Suður Karólínu nú í kvöld. Þrír eru í haldi lögreglu vegna árásarinnar.

Árásin átti sér stað nú undir kvöld en verslunarmiðstöðin er staðsett í borginni Columbia sem er höfuðborg Suður Karólínu, skammt frá borgunum Charleston og Charlotte. 

Af þeim tólf sem slösuðust í árásinni hlutu tíu þeirra skotsár og tveir eru alvarlega slasaðir. Sá yngsti sem slasaðist er fimmtán ára gamall. Þetta kom fram á blaðamannafundi lögreglunnar sem haldinn var núna klukkan níu.

Þar kom einnig fram að þrír einstaklingar séu í haldi, vitni hafi séð þrá þeirra með skotvopn og vitað sé að minnsta kosti einn þeirra hafi skotið. 

Enn er unnið að rannsókn málsins og lögregla vildi lítið gefa upp um ástæðurnar að baki árásinni. Fram kom í máli William Holbrook lögreglustjóra að lögreglan telji skotárásina ekki hafa átt sér stað af handahófi heldur hafi einhvers konar átök á milli einstaklinga átt sér stað. Fjölmörgum skotum hafi verið skotið.

Allir viðbragðsaðilar voru kallaðir til þegar tilkynning um skotárásina barst og sagði Holbrook að ástandið hefði verið erfitt. Hann þakkaði góðri æfingu lögreglumanna fyrir góð viðbrögð en bandaríska alríkislögreglan var meðal þeirra sem aðstoðaði á vettvangi.

Lögreglan í Columbia tilkynnti strax í kjölfar árásarinnar að starfsfólk ætti að halda sér í verslunum sínum og að yfirgefa ekki verslanir sínar nema skipanir komi frá yfirvöldum. 

Fréttin hefur verið uppfærð




Fleiri fréttir

Sjá meira


×