Fótbolti

Þjálfari Norður-Ír­lands segir konur til­­finninga­­ríkari en karla: Hefur beðist af­sökunar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kenny Shiels (lengst til vinstri) ræðir við leikmenn sína.
Kenny Shiels (lengst til vinstri) ræðir við leikmenn sína. Sky Sports

Kenny Shiels, þjálfari kvennalandsliðs Norður-Írlands í fótbolta, telur að konur séu tilfinningaríkari en karlar. Opinberaði hann skoðun sína á blaðamannafundi eftir 5-0 tap N-Írlands gegn Englandi í undankeppni HM 2023.

Norður-Írland og England mættust í undankeppni HM 2023 á Windsor Park í N-Írlandi fyrir framan rúmlega fimmtán þúsund manns á þriðjudag. Fór það svo að gestirnir handan við lækinn unnu 5-0 sigur eftir að vera einu marki yfir í hálfleik. 

Lauren Hemp skoraði eina mark fyrri hálfleiks en sóknarleikur gestanna blómstraði í síðari hálfleik. Ella Toone skoraði á 52. mínútu og Hemp bætti þriðja markinu við átta mínútum síðar. Georgia Stanway kom Englandi í 4-0 þegar tuttugu mínútur lifðu leiks og hún bætti svo öðru marki sínu og fimmta marki Englands við níu mínútum síðar.

Hinn 65 ára gamli Kenny Shiels, þjálfari Norður-Írlands, lét umdeild ummæli falla eftir leik er hann ræddi við blaðamenn. Hann hefur nú beðist afsökunar á ummælum sínum.

„Þegar lið fær á sig mark í kvennaknattspyrnu þá fá þær oft á sig mörk örskömmu síðar. Þetta á við um kvennaknattspyrnu í heild þar sem stelpur og kvenfólk er tilfinningaríkari en karlmenn,“ sagði Shiels.

„Ef þú ferð í gegnum tölfræðina – sem blaðamenn elska að gera – þá sérðu lið fá á sig mark á 18. mínútu og 21. mínútu. Það gerist svo aftur á 64. og 68. mínútu. Þau koma í bylgjum.“

„Við fengum á okkur mark á 48. mínútu og alls þrjú á sjö eða níu mínútum gegn Austurríki (leik sem N-Írland tapaði 3-1). Við reyndum því að drepa leikinn gegn Englandi eftir að þær komust yfir. Við vildum gefa leikmönnum tíma til að ná áttum og komast í jafnvægi. Þetta er vandamál sem við þurfum að glíma við, ekki bara Norður-Írland heldur allar aðrar þjóðir einnig.“

„Ég hefði ekki átt að segja ykkur þetta,“ sagði Shiels að endingu. 

Ian Wright, fyrrverandi framherji Arsenal og enska landsliðsins, segir Shiels vera kjána. Bendir Wright á hversu oft hann sjálfur brást í grát er hann var að spila.

England er á toppi D-riðils með fullt hús stiga eftir átta leiki og markatöluna 68-0. N-Írland er í 3. sæti með 13 stig, sex minna en Austurríki og á ekki lengur möguleika á að komast á HM á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×