Íslenski boltinn

Fram fær ungan Ástrala í vörnina

Sindri Sverrisson skrifar
Hosine Bility í vináttulandsleik með U23-landsliði Ástralíu gegn U19-landsliði Hollands í síðasta mánuði.
Hosine Bility í vináttulandsleik með U23-landsliði Ástralíu gegn U19-landsliði Hollands í síðasta mánuði. Getty

Ástralski knattspyrnumaðurinn Hosine Bility, sem leikið hefur fyrir U23-landslið Ástrala, er genginn í raðir Fram að láni frá danska úrvalsdeildarfélaginu Midtjylland

Bility er tvítugur og leikur sem miðvörður. Hann er sjálfsagt kærkomin viðbót fyrir Framara sem spáð er neðsta sæti í Bestu deildinni í sumar eftir að hafa misst tvo lykilmenn úr vörn liðsins sem tapaði ekki leik í Lengjudeildinni í fyrra.

Bility hefur leikið með U19-liði Midtjylland og verið í leikmannahópi aðalliðs félagsins í Evrópudeildinni í vetur en þó ekki spilað fyrir það enn sem komið er.

Bility er fjórði leikmaðurinn sem Fram fær eftir síðasta tímabil en áður höfðu komið bakvörðurinn Jesús Yendis frá Venesúela, miðjumaðurinn Tiago sem sneri aftur til Fram eftir að hafa verið í Grindavík, og danski framherjinn Jannik Pohl.

Fram byrjar keppnistímabilið á miðvikudagskvöldið í næstu viku þegar liðið tekur á móti KR. Leikurinn fer fram í Safamýri en það styttist óðum í að nýr völlur í Úlfarsárdal verði tilbúinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×