Viðskipti innlent

Arion ræður nýjan reglu­vörð og nýja for­stöðu­menn

Atli Ísleifsson skrifar
Andrés Fjeldsted, Elísabet Árnadóttir og Hreiðar Már Hermannsson.
Andrés Fjeldsted, Elísabet Árnadóttir og Hreiðar Már Hermannsson.

Arion banki hefur ráðið Andrés Fjeldsted í starf regluvarðar, Elísabetu Árnadóttur í starf forstöðumanns lítilla og meðalstórra fyrirtækja á fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviði og Hreiðar Má Hermannsson í starf forstoðumanns fyrirtækjaráðgjafar bankans.

Frá þessu segir í tilkynningu frá bankanum. „Andrés Fjeldsted er nýr regluvörður Arion banka og tekur hann við af Hákoni Má Péturssyni sem hefur gegnt starfi regluvarðar bankans frá árinu 2011. Andrés Fjeldsted hefur starfað við lögfræðiráðgjöf hjá Arion banka frá árinu 2015. Helstu verkefni hans hafa tengst eignastýringu bankans, yfirstjórn og nú síðast hefur hann verið ritari stjórnar bankans. Andrés er með mag. jur. gráðu frá Háskóla Íslands og með BA gráðu í hagfræði, heimspeki og stjórnmálafræði frá University of Essex.

Elísabet Árnadóttir hefur verið ráðin forstöðumaður lítilla og meðalstórra fyrirtækja á fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviði. Hún tekur við af Kristjáni Einarssyni sem sagði starfi sínu lausu hjá bankanum. Elísabet hóf störf hjá Arion banka árið 2000 og hefur sinnt þar ýmsum störfum, m.a. verið útibússtjóri, viðskiptastjóri fyrirtækja, fyrirtækjaráðgjafi og þjónusturáðgjafi. Elísabet er viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Akureyri og með próf í verðbréfaviðskiptum.

Hreiðar Már Hermannsson er nýr forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar Arion banka. Hann tekur við af Lýði Þór Þorgeirssyni sem hefur sagt starfi sínu lausu hjá bankanum. Hreiðar Már hóf störf hjá Arion banka árið 2019 og hefur starfað við sérhæfðar lánveitingar á fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviði. Á árunum 2016-2019 vann Hreiðar við fjárfestingar hjá VÍS. Þar áður starfaði hann við eignastýringu hjá Glitni og fyrirtækjaráðgjöf hjá Oury Clark í London. Hreiðar er viðskiptafræðingur frá London South Bank University og með MSc í fjármálum frá sama skóla,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×