Erlent

Bróðir fyrr­verandi for­sætis­ráð­herra nýr for­sætis­ráð­herra

Atli Ísleifsson skrifar
Shehbaz Sharif hefur átt sæti á þingi frá árinu 2018 en þar áður hafði hann meðal annars gegnt embætti forseta héraðsstjórnar Punjab um árabil.
Shehbaz Sharif hefur átt sæti á þingi frá árinu 2018 en þar áður hafði hann meðal annars gegnt embætti forseta héraðsstjórnar Punjab um árabil. AP

Pakistanska þingið skipaði í dag Shehbaz Sharif sem nýjan forsætisráðherra landsins. Hann tekur við embættinu af Imran Kahn sem var bolað úr embættinu þegar þingið samþykkti vantrauststillögu á hendur honum um helgina.

Shehbaz Sharif er yngri bróðir Nawaz Sharif sem hefur í þrígang gegnt embætti forsætisráðherra Pakistans, milli 1990 til 1993, 1997 til 1999 og svo aftur 2013 til 2017.

Shehbaz Sharif fór fyrir baráttu stjórnarandstæðinga að bola krikketstjörnunni fyrrverandi, Imran Khan, úr embætti forsætisráðherra. Í frétt DW segir að Khan hafi sakað bandarísk stjórnvöld um að hafa átt aðkomu að því að bola honum úr embætti, en þessu hafnar Bandaríkjastjórn.

Shehbaz Sharif hefur átt sæti á þingi frá árinu 2018 en þar áður hafði hann meðal annars verið forseti héraðsstjórnar Punjab um árabil.

Stjórnlagadómstóll Pakistans útilokaði árið 2017 Nawaz Sharif frá því að gegna opinberu embætti. Hann flúði í kjölfarið land til að gangast undir læknismeðferð þegar hann hafði afplánað einungis fáa mánuði af tíu ára fangelsisdómi sem hann hlaut vegna spillingarmála.


Tengdar fréttir

For­sætis­ráð­herra Pakistan steypt af stóli

Imran Khan, fyrrum krikketstjarna og forsætisráðherra Pakistan, hefur verið steypt af stóli eftir að vantrauststillaga, sem stjórnarandstaðan lagði fram í síðustu viku, var staðfest nú í Hæstarétti.

Nawaz Sharif sleppt úr fangelsi

Nawaz Sharif, fyrrverandi forsætisráðherra Pakistan, verður sleppt úr fangelsi einungis tveimur mánuðum eftir að hann byrjaði að afplána tíu ára fangelsisdóm fyrir spillingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×