Fótbolti

Endaði á nærbuxunum til að gleðja gamla aðdáendur

Sindri Sverrisson skrifar
Ivan Rakitic skokkar af sínum gamla heimavelli í gær, eftir 1-0 tapið gegn Barcelona.
Ivan Rakitic skokkar af sínum gamla heimavelli í gær, eftir 1-0 tapið gegn Barcelona. Getty/David S. Bustamante

Stuðningsmenn Barcelona sýndu Ivan Rakitic hlýhug og klöppuðu vel fyrir honum þegar þeir gátu loksins tekið á móti honum aftur á Camp Nou í gær. Rakitic gaf þeim svo bæði treyju sína og stuttbuxur áður en hann skokkaði af velli á nærbuxunum.

Rakitic var í liði Sevilla í gær og var einn af þeim sem Pedri fíflaði upp úr skónum áður en hann skoraði sigurmark Barcelona, í 1-0 sigri í spænsku 1. deildinni í fótbolta í gær.

Rakitic var hins vegar ekki sárari en svo eftir tapið að hann gaf sér tíma til að fara og þakka stuðningsmönnum Barcelona fyrir sig.

Rakitic kemur sér úr stuttbuxunum til að geta glatt stuðningsmann Barcelona.Getty/Jose Breton

Rakitic var í miklum metum hjá Barcelona og vann 13 titla með félaginu á sex árum, þar á meðal spænska meistaratitilinn fjórum sinnum.

Hann var svo seldur til Sevilla í september 2020 en vegna kórónuveirufaraldursins gafst ekki tækifæri fyrir stuðningsmenn til að kveðja hann, og áhorfendur voru bannaðir þegar Rakitic sneri aftur á Camp Nou á síðustu leiktíð.

Stundin í gær var því langþráð fyrir bæði hann og stuðningsmenn Barcelona sem eins og fyrr segir fengu fötin hans að viðskilnaði.

Með sigrinum í gær komst Barcelona upp fyrir Sevilla og Atlético Madrid en liðin eru hvert um sig með 57 stig, í 2.-4. sæti spænsku deildarinnar. Barcelona á auk þess leik til góða en enn eru 12 stig í topplið Real Madrid sem á spænska meistaratitilinn vísan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×