Erlent

Minnst sex látnir eftir skotárás í Sacramento

Eiður Þór Árnason skrifar
Rannsakendur á vettvangi árásarinnar í dag.
Rannsakendur á vettvangi árásarinnar í dag. AP/Rich Pedroncelli

Að minnsta kosti sex voru skotnir til bana og tíu særðust í skotárás í miðbæ Sacramento í Kaliforníu í morgun að sögn lögreglu.

Fjöldi fólks flúði svæðið eftir að hljóð í sjálfvirku skotvopni ómaði á svæði sem er þéttskipað veitingastöðum og öldurhúsum. Sjúkrabílar voru sendir á staðinn og lögregluþjónar lokuðu svæðið af eftir árásina. Þá beindi lögregla þeim tilmælum til íbúa að halda sig frá svæðinu.

Skotárásin átti sér stað nærri Golden One Center-íþróttahöllinni þar sem körfuboltaliðið Sacramento Kings spilar leiki sína og einungis nokkrum götum frá þinghúsinu í Kaliforníu.

„Þetta var hryllingur. Um leið og ég mætti á svæðið varð ég vitni að óreiðukenndum aðstæðum þar sem lögregluþjónar voru út um allt, fórnarlömb útötuð blóði, öskrandi fólk og fólk sem spurði ‚Hvar er bróðir minn?‘ Grátandi mæður sem voru að reyna að bera kennsl á börn sín,“ hefur BBC eftir aðgerðarsinnanum Barry Accius, sem kom á vettvang árásarinnar um klukkan 2.30 að staðartíma eða 9.30 að íslenskum tíma.

AP-fréttaveitan greinir frá því að lögregluyfirvöld viti ekki hvort einn eða fleiri hafi átt aðild að skotárásinni og hún hafi óskað eftir aðstoð almennings við að bera kennsl á árásarmennina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×