Erlent

Segir að Kína muni ekki reisa herstöð á Salómonseyjum

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá sendiráði Kína á Salómonseyjum.
Frá sendiráði Kína á Salómonseyjum. AP/Charley Piringi

Ráðamenn á Salómonseyjum segja að Kína verði ekki leyft að reisa herstöð þar. Það er þrátt fyrir að ríkin ætli sér að skrifa undir varnarsáttmála. Yfirvöld í Ástralíu og Bandaríkjunum hafa áhyggjur af því að sáttmálinn feli í sér aukin umsvif Kínverja á eyjunum sem eru hernaðarlega mikilvægar.

Embættismenn ríkjanna skrifuðu í gær undir drög að varnarsáttmála en Manasseh Sogavare, forsætisráðherra Salómonseyja sagði í morgun að það fæli ekki í sér byggingu herstöðvar.

Sáttmálinn hefur þó ekki verið staðfestur af ráðherrum Salómonseyja og Kína. Fyrri drög af honum sem lekið var til fjölmiðla, sýndu að sáttmálinn fæli í sér að kínversk herskip gætu tekið eldsneyti og birgðir á eyjunum, samkvæmt frétt Reuters.

Í Ástralíu segja ráðamenn að komi Kínverjar upp viðveru við Salómonseyjar, muni yfirvöld þurfa að endurhugsa varnir ríkisins, samkvæmt frétt ABC.

Yfirvöld í Míkrónesíu og Nýja-Sjálandi hafa lýst yfir áhyggjum vegna sáttmálans. Míkrónesíumenn segjast óttast að svæðið muni koma illa út í mögulegu stríði milli Kína og Bandaríkjanna. Nýsjálendingar segja sáttmálann muna koma niður á öryggissamvinnu ríkja á svæðinu.

Retuers hefur eftir Peter Dutton, varnarmálaráðherra Ástralíu, að Kínverjar hafi heitið því að koma ekki upp vopnum í Suður-Kínahafi, sem þeir gera ólöglegt tilkall til, en hafi ekki staðið við það.

Hann segist óttast að eitthvað svipað væri upp á teningnum varðandi Salómonseyjar.


Tengdar fréttir

Ástralar og Japanir skrifa undir varnarsáttmála

Ríkisstjórnir Japans og Ástralíu skrifuðu í morgun undir varnarsáttmála sem ríkin segja að sáttmálinn muni auka stöðugleika í Austur-Asíu. Yfirvöld í Ástralíu hafa á undanförnum árum aukið varnarsamstarf með Japan, Indlandi, Bandaríkjunum og Bretlandi vegna áhyggja af auknum mætti Kína.

Ástralskir lögreglumenn skerast í leikinn á Salómonseyjum

Útgöngubanni hefur verið komið á yfir nótt á Salómonseyjum í Kyrrahafi þar sem óeirðir hafa geisað undanfarna þrjá daga. Ástralskir lögreglumenn sem voru sendir til að aðstoða stjórnvöld á eyjunum hafa tekið sér stöðu á lykilstöðum í höfuðborginni Honiara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×