Innlent

Merkja gríðar­lega aukningu í net­á­rásum

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Paula Januszkiewicz stofnandi og forstjóri COURE.
Paula Januszkiewicz stofnandi og forstjóri COURE. Syndis

Sérfræðingar í tölvuöryggismálum segjast merkja gríðarlega aukningu í netárásum. Árásunum hafi fjölgað eftir innrás Rússa í Úkraínu og afleiðingar eigi enn eftir að koma fyllilega í ljós. Öflugar árásir geti valdið stöðvun á þjónustu heilu borga og bæja.

Tæplega 300 manns komu saman á öryggisráðstefnu netöryggisfyrirtækisins Syndis sem fram fór á Grand Hotel í Reykjavík í dag. Innlendir og erlendir sérfræðingar á ólíkum sviðum netöryggismála héldu erindi um upplýsingamál og skyggnst var inn í hugarheim tölvuþrjóta.

Paula Januszkiewicz, stofnandi og forstjóri pólska netöryggisfyrirtækisins CQURE, segist lengi hafa þurft að kljást við rússneska tölvuþrjóta.

„Það hefur orðið gríðarleg aukning árása síðasta árið og enn fleiri árásir í kjölfar stríðs í Úkraínu. Við höfum ekki séð allar afleiðingar af því strax. Það er mjög mikilvægt að allir séu á varðbergi, líka hinn almenni starfsmaður sem á að vera álitinn sterkasti hlekkurinn en ekki sá veikasti,“ sagði Paula á ráðstefnunni.

Anton M. Egilsson, aðstoðarforstjóri Syndis, segir í tilkynningu að vöktun mikilvægra kerfa skipti mestu máli. Það þurfi að vakta kerfin allan sólarhringinn, alla daga ársins. Það sé erfitt að vera fullkomlega öruggur en mikilvægt að vera viðbúinn öllu.

„Reynslan sýnir að með slíkri vöktun hefði verið hægt að koma í veg fyrir margar árásir síðasta árs. Rafmagn, fjármálaþjónusta, samgöngur og vatnsveita eru allt gríðarlega mikilvægir innviðir sem óhugsandi væri að missa út í slíkum tölvuárásum. Aukning í slíkum árásum sem geta valdið stöðvun á þjónustu heilu borga og bæja,“ segir Anton.


Tengdar fréttir

Búast við rúss­neskum net­á­rásum á Ís­land

Aðstoðarforstjóri netöryggisfyrirtækisins Syndis segir að viðbúnaður hér á landi vegna yfirvofandi netárása Rússa hafi aukist, sem og í öðrum ríkjum Atlantshafsbandalagsins. Alþjóðlegur hópur hakkara hefur ráðist á Rússa með góðum árangri, en búast má við því að Rússar ráðist á netinnviði NATO-ríkja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×