Umfjöllun og viðtöl: Fjölnir 76-86 Valur | Bikarinn í voginn

Andri Már Eggertsson skrifar
Fjölniskonurnar Margrét Ósk Einarsdóttir og Stefanía Ósk Ólafsdóttir taka við deildarmeistaratitlinum í kvöld.
Fjölniskonurnar Margrét Ósk Einarsdóttir og Stefanía Ósk Ólafsdóttir taka við deildarmeistaratitlinum í kvöld. Vísir/Bára Dröfn

Þrátt fyrir 10 stiga tap í kvöld þá er Fjölnir deildarmeistari í Subway-deild kvenna vegna betri innbyrðisstöðu gegn Val, lokatölur 76-86. 

Það var mikil eftirvænting fyrir síðustu umferð Subway-deildar kvenna hjá íbúum Grafarvogs þar sem Fjölnir gat brotið blað í sögu félagsins og unnið fyrsta stóra titilinn í 34 ára sögu Fjölnis. Það var mikið lagt í umgjörðina fyrir leik og fengu áhorfendur Fjölnis gula boli og trefla merkta félaginu.

Valur var illmenni kvöldsins þar sem gestirnir frá Hlíðarenda gátu eyðilagt fjörið með yfir 25 stiga sigri og endað með deildarmeistaratitilinn á Hlíðarenda. 

Það var hvergi sjáanlegur taugaóstyrkur í liði Fjölnis sem gat ekki byrjað leikinn betur. Fjölnir byrjaði á að gera sjö stig í röð og mátti sjá mikla gleði meðal stuðningsmanna Fjölnis sem fjölmenntu.

Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari Vals, tók leikhlé, sjö stigum undir og þá kviknaði á gestunum frá Hlíðarenda sem gerðu ellefu stig gegn aðeins tveimur og staðan orðin 9-11.

Fjölnir byrjaði annan leikhluta á að jafna leikinn 19-19. Valur náði þá snörpu áhlaupi og var sex stigum yfir eftir tæplega fjórtán mínútur. Fjölnir tók svo athyglisvert áhlaup þar sem Valur tapaði boltanum þrisvar í röð og Fjölnir refsaði í hvert einasta skipti.

Valur var sex stigum yfir í hálfleik 34-40 og þurfti að vinna síðari hálfleik með tuttugu stigum eða meira til að verða deildarmeistari.

Þrátt fyrir að Valur hafi verið yfir nánast allan seinni hálfleik þá var deildarmeistaratitilinn aldrei í hættu hjá Fjölniskonum.

Fjölnir komst sjö stigum yfir þegar sex mínútur voru liðnar af seinni hálfleik en þá fóru konurnar úr Grafarvogi að gefa eftir enda stóra markmið leiksins í augsýn. Þegar haldið var í síðasta fjórðung var Valur þremur stigum yfir.

Valur var sterkari aðilinn í fjórða leikhluta en það breytti engu máli fyrir Fjölni og voru stuðningsmenn Fjölnis farnir að syngja um deildarmeistaratitilinn áður en leikurinn kláraðist.

Rétt áður en leikurinn kláraðist fékk Aliyah Daija Mazyck sína aðra tæknivillu og var rekinn út úr húsi. Valur vann að lokum tíu stiga sigur 76-86.

Af hverju vann Valur?

Valur hafði tryggt sér annað sæti í deildinni og hafði engu að tapa gegn Fjölni í kvöld. Valur spilaði vel á báðum endum vallarins og vann að lokum nokkuð sannfærandi sigur þrátt fyrir stórleik Aliyah Daija Mazyck.

Hverjar stóðu upp úr?

Aliyah Daija Mazyck fór á kostum hjá Fjölni og gerði 40 stig, tók 14 fráköst og gaf 7 stoðsendingar.

Ameryst Alston var stigahæst hjá Val með 30 stig.

Hvað gekk illa?

Fjölnir fékk afar lítið framlag frá varamannabekknum en Iva Bosnjak var sú eina sem byrjaði á bekknum og komst á blað en hún gerði þrjú stig í leiknum.

Hvað gerist næst?

Úrslitakeppnin hefst á mánudaginn þar sem Fjölnir mætir Njarðvík í Dalhúsum og Valur mætir Haukum í Origo-höllinni. 

Halldór Karl: Byrjum að undirbúa okkur gegn Njarðvík strax á morgun

Halldór Karl var afar ánægður með veturinnVísir/Bára Dröfn

Halldór Karl Þórsson, þjálfari Fjölnis, var afar stoltur að verða deildarmeistari með Fjölni og vinna fyrsta titil félagsins í boltagrein.

„Við vorum klaufar að klára ekki leikinn og það skekkir smá stemmninguna en við höfum verið efstar nánast í allan vetur og eigum deildarmeistaratitilinn skilið,“ sagði Halldór Karl eftir tap gegn Val. 

Halldór Karl var afar stoltur að verða deildarmeistari og brjóta blað í sögu Fjölnis. 

„Ég er hrikalega stoltur af árangrinum. Það er ekki langt síðan við vorum í næst efstu deild, ég er mjög stoltur þjálfari og er ég spenntur fyrir úrslitakeppninni þar sem við ætlum að verða Íslandsmeistarar.“

Fjölnir mætir Njarðvík í úrslitakeppninni og er Halldór spenntur fyrir verkefninu.

„Mér líst ágætlega á Njarðvík, við unnum Njarðvík í seinasta leik. Núna er deildin búin og förum við að undirbúa einvígi gegn Njarðvík strax á morgun,“ sagði Halldór Karl Þórsson að lokum. 

Ólafur Jónas: Hlakka til að mæta Haukum

Ólafur og Berglind ræða saman í leik dagsinsVísir/Bára Dröfn

Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari Vals, var brattur eftir sigur gegn Fjölni sem þýddi þó að Valur yrði ekki deildarmeistari.

„Mér fannst stelpurnar tækla þennan leik mjög vel, okkur tókst að vinna hörkulið sem endaði sem deildarmeistari og óska ég Fjölni innilega til hamingju með stórkostlegan vetur. Ég er ánægður með hvernig mínar stelpur komu inn í leikinn, börðust allan tímann og skemmtu sér að spila körfubolta,“ sagði Ólafur Jónas eftir leik. 

Ólafur var ánægður með vörn Vals sem liðið hafði lítið sem ekkert æft 

„Daginn fyrir leik settum við inn fáránlega vörn og fannst mér það virka vel á köflum en augljóslega fengum við opin skot í andlitið á okkur en svona er þetta.“

Ólafur er fullur tilhlökkunar fyrir komandi einvígi gegn Haukum í úrslitakeppninni.

„Mér lýst mjög vel á þetta einvígi, ef þú ætlar að verða Íslandsmeistari þá þarftu að vinna Hauka og er ég mjög spenntur fyrir þessu einvígi,“ sagði Ólafur Jónas að lokum. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira