Erlent

Neita að endur­skoða lífs­tíðar­dóm fram­halds­skóla­starfs­manns

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Kvikmyndin To Die For með Nicole Kidman og Joaquin Phoenix er byggð á máli Pamelu.
Kvikmyndin To Die For með Nicole Kidman og Joaquin Phoenix er byggð á máli Pamelu. WMUR/AP

Pamela Smart, sem situr inni fyrir að hafa látið framhaldsskólanema myrða eiginmann sinn, fær ekki endurskoðun á lífstíðardómnum er hún hlaut fyrir rúmum þrjátíu árum síðan. 

Smart var starfsmaður í framhaldsskóla þegar hún hélt við fimmtán ára gamlan nemanda. Hún fékk drenginn til að skjóta eiginmann sinn til bana en nemandinn hefur verið látinn laus úr fangelsi.

Pamela hefur árangurslaust reynt að fá dómstóla til að endurskoða lífstíðardóminn en hún er nú 54 ára gömul. Hún segist full eftirsjár. AP fréttaveitan greinir frá.

„Mér er engin vorkunn og þetta var allt mér að kenna. Ég sé eftir því að hafa ekki beðið fjölskyldu eiginmanns míns heitins afsökunar fyrr og ég sé eftir því að hafa ekki beðið fjölskyldu mína afsökunar. Ég var ung og eigingjörn,“ sagði Smart fyrir dómi í desember.

Þetta var í fyrsta skipti sem hún hefur opinberlega beðið fjölskyldu eiginmannsins sem hún myrti afsökunar. Saksóknari sagði hana hafa logið í áratugi og kvað afsökunarbeiðnina engu breyta.

Pamela má biðja um endurskoðun á lífstíðardómnum á tveggja ára fresti en þetta er í þriðja skipti sem hún gerir tilraun til áfrýjunar. 

Mál Pamelu Smart var áberandi í fjölmiðlum árið 1990 og bókin To Die For, sem gefin var út árið 1992, er byggð á máli Pamelu. Þá var einnig gefin út samnefnd kvikmynd um sögu Smart en í henni léku meðal annars Nicole Kidman og Joaquin Phoenix.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×