Erlent

Einka­þota ó­ligarka á meðal hátt í hundrað kyrr­settra véla

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Róman Abramóvítsj er einn auðugasti maður Rússlands og sagður innsti koppur í búri hjá sjálfum Pútín. Sjálfur þvertekur hann þó fyrir það, en það hefur ekki komið í veg fyrir að vesturlönd hafi beitt hann víðtækum þvingunum vegna innrásar Rússa í Úkraínu.
Róman Abramóvítsj er einn auðugasti maður Rússlands og sagður innsti koppur í búri hjá sjálfum Pútín. Sjálfur þvertekur hann þó fyrir það, en það hefur ekki komið í veg fyrir að vesturlönd hafi beitt hann víðtækum þvingunum vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Mikhail Svetlov/Getty

Viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna hefur kyrrsett hátt í hundrað flugvélar með tengsl við Rússland. Þeirra á meðal er flugvél í eigu óligarkans og milljarðamæringsins Rómans Abramóvítsj.

Ráðuneytið segir að kyrrsetning vélanna sé liður í refsiaðgerðum Bandaríkjanna vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Þá geti það leitt til þungra sekta og jafnvel fangelsisrefsingar að þjónusta vélarnar hvar sem er í heiminum, jafnvel innan Rússlands.

Flestar vélanna sem um ræðir eru farþegaþotur, meðal annars á vegum rússneska ríkisflugfélagsins Aeroflot. Þó er á listanum að finna eina einkaþotu í eigu Rómans Abramóvítsj, eins auðugasta manns Rússlands og núverandi eiganda enska knattspyrnuliðsins Chelsea.

Abramóvítsj er einn þeirra sjö óligarka sem bresk stjórnvöld hafa beitt viðskiptaþvingunum vegna innrásarinnar, meðal annars með þeim afleiðingum að starfsemi Chelsea hefur verið verulega skert. Félagið hefur nú verið sett í söluferli sem breska ríkið hefur yfirumsjón með, og rann tilboðsfrestur í félagið út í kvöld.

Abramóvítsj er sagður hafa náin tengsl við Vladímír Pútín Rússlandsforseta, en auðmaðurinn hefur sjálfur neitað fyrir það.

Vilja hefta ferðagetu 

Viðskiptaráðherra Bandaríkjanna, Gina Raimondo, segir að kyrrsetning flugvélanna sé bein viðbrögð við „miskunnarlausu stríði Rússa í Úkraínu sem þeir völdu sjálfir að fara í.“

„Við munum birta lista til þess að gera heiminum ljóst að við munum ekki leyfa rússneskum og hvítrússneskum fyrirtækjum og óligörkum að ferðast refsilaust, í trássi við lög.“

Bandaríkin, Kanada og fjöldi Evrópuríkja hafði þegar bannað rússneskum flugvélum að koma inn í lofthelgi sína, sem hefur gert rússneskum flugfélögum afar erfitt fyrir með áætlunarflug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×