Viðskipti innlent

Tekur við stöðu for­stjóra Salt­Pay

Atli Ísleifsson skrifar
Jónína Gunnarsdóttir.
Jónína Gunnarsdóttir. Aðsend

Fjártæknifyrirtækið SaltPay hefur ráðið Jónínu Gunnarsdóttur sem forstjóra félagsins hér á landi. Hún tekur við stöðunni af Reyni Finndal Grétarssyni sem gegnt hefur starfi forstjóra síðan í ágúst en hann mun taka við starfi stjórnarformanns SaltPay.

Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að Jónína hafi starfað hjá SaltPay, og forverum þess, allt frá árinu 2014 og hafi á þeim tíma verið í ýmsum hlutverkum innan félagsins. 

„Frá ársbyrjun 2021 hefur Jónína borið ábyrgð á daglegum rekstri félagsins. Jónína er viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Hún er gift Guðna M. Ingvasyni og saman eiga þau synina Gunnar Árna, Aron og Ingva.

Þá mun Ólöf Helga Jónsdóttir taka við sem aðstoðarforstjóri SaltPay. Ólöf hefur starfað hjá félaginu frá árinu 2017 og tók við sem mannauðsstjóri árið 2020. Frá ársbyrjun 2021 hefur hún einnig stýrt daglegum rekstri félagsins samhliða Jónínu. Unnusti Ólafar er Sigurbjörn Hlöðver Jóhannsson og saman eiga þau tvö börn.“

Haft er eftir Reyni Grétarssyni, fráfarandi forstjóri og verðandi stjórnarformanni SaltPay, að þegar hann hafi tekið við starfi forstjóra SaltPay í fyrrahaust hafi legið fyrir ákveðin verkefni sem nú séu komin í góðan farveg. „Ég tel að fyrirtækið sé komið á góðan stað og tímabært sé fyrir mig að færa mig í hlutverk stjórnarformanns. Ég mun því áfram fylgja félaginu og fá tækifæri til að styðja við Jónínu og hennar fólk í þeim spennandi verkefnum sem framundan eru hjá SaltPay,“ segir Reynir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×