Fótbolti

Al­menningur gæti fengið að sjá lög­reglu­skýrsluna um Cristiano Ron­aldo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo fagnar marki með Manchester United á þessu tímabili.
Cristiano Ronaldo fagnar marki með Manchester United á þessu tímabili. Getty/Ash Donelon/

Alríkisdómstóll í Las Vegas hefur opnað á möguleikann á því að skýrsla Las Vegas lögreglunnar um Cristiano Ronaldo verði gerð opinber.

Lögreglan safnaði sönnunargögnum saman eftir að kona frá Nevada sakaði Ronaldo um nauðgun árið 2009.

Dómarinn Daniel Albregts hélt því fram að það væri möguleg ritskoðun stjórnvalda að neita New York Times aðgengi að sönnunargögnum úr málinu.

Gögnin hafa verið leynileg allar götur síðan Ronaldo og konan, Kathryn Mayorga, sömdu um lausn málsins utan réttarsalsins.

Albregts heldur því fram að það samkomulag eigi aðeins við dómstóllinn í Las Vegas en banni ekki lögreglunni í Las Vegas að opinbera gögnin sín.

Mayorga höfðaði síðan einkamál gegn Ronaldo árið 2018 þar sem hún hélt því fram að hún hefði verið neydd í að skrifa undir samkomulagið af því að hún vildi ekki að nafn hennar yrði gert opinbert. Hún sóttist eftir að fá mörgum milljónum dollara meira í bætur en þá 375 þúsund dollara sem hún fékk á sínum tíma.

Mayorga er nú 38 ára gömul eða einu ári eldri en Ronaldo. Hún er fyrrum fyrirsæta og starfar sem kennari í Las Vegas.

Hún hitti Ronaldi á næturklúbbi og fór með honum og fleirum upp í hótelsvítu hans þar sem hann á að hafa ráðist á hana í herbergi sínu í júní 2009. Hún var 25 ára á þeim tíma en Ronaldo var um það bil að skipta úr Manchester United yfir í Real Madrid fyrir metfé.

Það verður áhugavert að sjá hver næstu skref verða í þessu máli sem vissulega verður mikill fjölmiðlamatur verði gögnin á endanum opinberuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×