Erlent

Skaut þrjá heimilis­lausa menn í New York um helgina

Atli Ísleifsson skrifar
Árásarmannsins er leitað en hann klæddist svörtu frá toppi til táar.
Árásarmannsins er leitað en hann klæddist svörtu frá toppi til táar. Lögregla í NYC

Lögregla í New York í Bandaríkjunum leitar nú manns sem skaut þrjá heimilislausa einstaklinga, og þar af tvo til bana, þar sem þeir lágu sofandi á götum borgarinnar um helgina. Lögregla hefur boðið 10 þúsund dali fyrir þann sem veitir upplýsingar sem leiða til handtöku mannsins.

Tvær árásirnar áttu sér stað með um níutíu mínútna millibili neðarlega á Manhattan snemma á lagardaginn og sú þriðja í gærkvöldi, að því er segir í frétt NBC.

Myndband náðist af báðum árásum laugardagsins í eftirlitsmyndavélum. Í þeirri fyrri má sjá heimilislausan mann þar sem hann liggur sofandi nærri horni King Street og Varick og mann sem kemur að honum og skýtur í framhandlegginn.

Henry Sautner, aðstoðarlögreglustjóri í New York, segir að sá sem varð fyrir skotinu og er 38 ára, hafi þá vaknað og hrópað „Hvað ertu að gera?“ og þá hafi árásarmaðurinn hlaupið á brott.

Seinni árás laugardagsins átti sér svo stað á Lafayette Street, en þar fannst maður látinn með skotsár í höfði og hálsi.

Þriðja árásin var svo gerð um klukkan sjö í gærkvöldi, á horni Greenwich Street og Mary Street þar sem heimilislaus maður var einnig skotinn til bana, að því er segir í frétt NBC.

Eric Adams, borgarstjóri New York borgar, segir myndbandsupptökurnar vera „hrollvekjandi“ og virðist sem að árásarmaðurinn hafi ætlað að drepa mennina af þeirri ástæðu að þeir væru heimilislausir.

Lögregla rannsakar nú hvort að árásirnar í New York tengist árásum í höfuðborginni Washington DC fyrr í mánuðum þar sem einnig var ráðist á heimilislausa. Í þeim árásum lést eitt fórnarlambanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×