Neytendur

Bensín­lítrinn kominn yfir 300 krónur á einni bensín­stöð Olís

Atli Ísleifsson skrifar
Bensínverð hefur hækkað umtalsvert síðustu vikurnar, ekki síst í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu og hækkandi heimsmarkaðsverðs. Myndin er úr safni.
Bensínverð hefur hækkað umtalsvert síðustu vikurnar, ekki síst í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu og hækkandi heimsmarkaðsverðs. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Bensínlítrinn kostar nú 302,80 krónur bensínstöð Olís í Hrauneyjum. Bensínverð hefur hækkað umtalsvert síðustu vikurnar, ekki síst í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu og hækkandi heimsmarkaðsverðs.

Á heimasíðum bensínfyrirtækjanna má sjá verð á 95 oktana bensíni og dísil og þar hefur glögglega sést hvernig verðið hefur hækkað nokkuð skarpt síðustu daga.

Á vef Olís má sjá að 300 króna múrinn hafi verið rofinn í Hrauneyjum þar sem bensínlítrinn kostar nú 302,80 krónur og dísillítrinn 295,80 krónur. Lægsta verð Olís er að finna á Akureyri þar sem bensínlítrinn er á 288,90 krónur og dísillítrinn á 284,20 krónur. Algengasta verð á bensínstöðvum Olís eru 297,80 krónur á bensínlítrann og 290,80 fyrir dísillítrann.

Hjá N1 er hæsta og jafnframt algengasta verðið 297,90 krónur fyrri bensínlítrann en 290,90 krónur fyrir dísilllítrann. Lægsta verðið er á sjálfsafgreiðslustöðvum N1 í Norðurhellu og Skógarlind þar sem bensín- og díslilítrinn kostar 264,90 krónur.

Hjá Orkunni er hæsta og algengasta verðið 294,80 krónur fyrir bensínlítrann og 287,70 krónur fyrir dísillítrann. Lægsta verðið er 263,80 krónur fyrir bensínlítrann og 264,70 krónur fyrir dísillítrann á stöðvum við Dalveg í Kópavogi, Bústaðarveg í Reykjavík, Reykjavíkurveg í Hafnarfirði, Mýrarveg á Akureyri.

Hjá Costco í Kauptúni, Garðabæ kostaði bensínlítrinn 255,90 krónur og dísillítrinn 254,90 krónur í morgun.

Hjá Atlantsolíu er hæsta og algengasta verðið 298,90 krónur fyrir bensínlítrann og 292,90 krónur fyrir dísillítrann. Lægsta verð er að finna á stöðvunum við Sprengisand í Reykjavík, Kaplakrika í Hafnarfirði og Baldursnesi á Akureyri – 264,90 krónur fyrir bensínlítrann og sama verð fyrir dísillítrann.

Hjá ÓB Bensíni er hæsta og algengasta verðið 294,90 krónur fyrir bensínlítrann og 287,80 krónur fyrir dísillítrann. Ódýrastur er bensínlítrinn 263,90 krónur á stöðvum ÓB við Hlíðarbraut á Akureyri, Arnarsmára, Bæjarlind og Hamraborg í Kópavogi og svo Fjarðarkaupum í Hafnarfirði.

Ekki er tekið tillit til afsláttar til viðskiptavina bensínfélaganna. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×