Erlent

Leiðtogar Sádi Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmana neita að ræða við Biden

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bandaríkjamenn hafa meðal annars sótt hart að Sádi Arabíu vegna morðsins á blaðamanninum Jamal Khashoggi.
Bandaríkjamenn hafa meðal annars sótt hart að Sádi Arabíu vegna morðsins á blaðamanninum Jamal Khashoggi.

Leiðtogar Sádi Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmana eru sagðir hafa neitað að eiga samtal við Joe Biden Bandaríkjaforseta á síðustu vikum á sama tíma og Biden og ráðamenn í Evrópu hafa leitað leiða til að draga úr gríðarlegri hækkun olíuverðs.

OPEC+, samtök olíuríkjanna í OPEC og tíu annarra ríkja sem einnig flytja út olíu, neituðu í síðustu viku að auka olíuframleiðslu þrátt fyrir umleitan vesturveldanna. Sádi Arabía og Sameinuðu arabísku furstadæmin gætu engu að síður ein og sér létt verulega á þrýstingnum á olíuverð, ef þau samþykktu að framleiða meira.

Wall Street Journal segir ríkin hins vegar ekki hafa gefið færi á sér þegar eftir því var leitað af hálfu Bandaríkjamanna. Miðillinn hefur eftir bandarískum embættismanni að væntingar hafi staðið til þess að Mohammed bin Salman og Biden myndu ræða saman en ekkert hefði orðið af því.

Bandaríkjamenn og Bretar hafa tilkynnt um fyrirætlanir um að hætta að kaupa olíu af Rússum vegna innrásarinnar í Úkraínu. Samskipti Bandaríkjanna og Sádi Arabíu annars vegar og Sameinuðu arabísku furstadæmana hins vegar hafa hins vegar ekki verið með besta móti, meðal annars vegna gagnrýni Bandaríkjamanna á stöðu mannréttindamála í Sádi Arabíu.

Frægt er meðal annars orðið þegar Joe Biden hét því að nálgast Sádi Arabíu sem úrhrak í alþjóðasamfélaginu og sagði fátt eitt gott að segja af þarlendum stjórnvöldum.

Bandaríkjamenn hafa fyrir sitt leiti endurnýjað samskiptin við Venesúela, sem lét að minnsta kosti tvo Bandaríkjamenn lausa úr fangelsi eftir að viðræður komust á um helgina um möguleikann á aukinni olíuframleiðslu þar í landi.

Guardian greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×