Innlent

Stofna Strandveiðifélag Íslands til að berjast fyrir réttinum til handfæraveiða

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Félagið segir strandveiðar ákjósanlegar til að uppfylla nýjar kröfur neytenda um „umhverfisvænan“ og ferskan fisk.
Félagið segir strandveiðar ákjósanlegar til að uppfylla nýjar kröfur neytenda um „umhverfisvænan“ og ferskan fisk.

Stofnað hefur verið Strandveiðifélag Íslands en tilgangur þess verður „að standa vörð um og berjast fyrir rétti almennings til handfæraveiða við Íslandsstrendur“.

Félagið var stofnað á fundi í gamla Stýrimannaskólanum hinn 5. mars síðastliðinn. Samkvæmt tilkynningu frá félaginu mættu 50 á fundinn en 60 fylgdust með á netinu.

Gunnar Ingiberg Guðmundsson skipstjóri var kjörinn formaður og níu kjörnir í stjórn og varastjórn.

Félaginu er ætlað „að koma í veg fyrir mismunun í lögum um fiskveiðistjórnun“ sem félagið segir brjóta í bága við stjórnarskrá Íslands. Þá segir félagið öflugar handfæraveiðar myndu svara ákalli neytenda um „umhverfisvænan“ og ferskan fisk.

Stofnfundurinn samþykkti svohljóðandi ályktun:

„Strandveiðifélags Íslands skorar á íslensk stjórnvöld að hlúa að og efla strandveiðar við Ísland. Taka þarf stór skref til að uppfylla álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2007, þar sem kemur fram að íslensku lögin um stjórn fiskveiða brjóti í bága við 26. gr. Alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi um jafnrétti allra manna. Við skorum á löggjafa- og framkvæmdavaldið að taka einnig tillit til niðurstöðu Hæstaréttar Íslands frá 1998, þar sem kemur ótvírætt fram að fiskveiðistjórnunarkerfið eins og það er uppbyggt væri andstætt jafnréttisákvæðum stjórnarskrárinnar og ákvæðum um atvinnufrelsi.

Með aukinni umhverfisvitund eru neytendur um allan heim tilbúnir til að greiða hærra verð fyrir umhverfisvænan og ferskan fisk. Öflugar handfæraveiðar myndu svara þessu ákalli neytenda og aukinni umhverfisvitund fyrirtækja.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×