Erlent

Á fjórða hundrað al­mennra borgara fallið í á­tökunum en lík­lega mun fleiri

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Að minnsta kosti 330 almennir borgarar hafa fallið frá því að stríðið hófst.
Að minnsta kosti 330 almennir borgarar hafa fallið frá því að stríðið hófst. AP Photo/Pavel Dorogoy

Að minnsta kosti 331 almennur borgari hefur fallið og 675 særst í innrás Rússa í Úkraínu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna sem telur þó að talan sé mun hærri.

Allsherjarinnrás Rússa í Úkraínu hófst aðfaranótt 24. febrúar og ekkert lát er á átökunum. Yfirvöld í Úkraínu hafa gefið það út að minnst tvö þúsund almennir borgarar hafi fallið frá upphafi átakanna en Mannréttindastofnun SÞ hefur nú staðfest að minnst 331 hefur fallið en líklega mun fleiri. Af þeim, sem staðfest er að hafi látist, eru nítján börn. 

Flest fórnarlambanna féllu í stórskotaliðsárásum eða loftárásum samkvæmt stofnuninni, sem fylgist náið með gangi mála í Úkraínu. 

Þá hafa meira en 1,2 milljónir manna flúið Úkraínu til nágrannaríkjanna á einni viku. Um helmingur þeirra eru börn samkvæmt mati Barnahjálpar Sameinuðu Þjóðanna, UNICEF. Flóttamannastofnun SÞ hefur spáð því að fjórar milljónir Úkraínumanna muni þegar uppi er staðið þurfa á aðstoð annarra ríkja að halda. 

Guardian hefur eftir Joung-ah Ghedini-Williams, samskiptastjóra UNCHR, að fjöldi fólks á flótta frá Úkraínu, með tilliti til þess hve stutt er siðan átökin hófust þar, sé undraverður. Þá sé vitað um að mjög margir hafi þurft að flýja heimili sín í Úkraínu en haldi enn til þar í landi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×