Innlent

„Sorglegt að við séum að horfa upp á stríðsátök í Evrópu á þessum tímum“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Vísir/Egill Aðalsteinsson

Forsætisráðherra fordæmir innrás Rússa í Úkraínu og segir að íslensk stjórnvöld muni þegar í stað leggja aukið fé í mannúðaraðstoð. Þá megi búast við aukinni umferð og liðsflutningum af hálfu Atlantshafsbandalagsins um varnarsvæðið á næstu dögum og vikum.

„Íslensk stjórnvöld hafa fordæmt þessa innrás og að sjálfsögðu höfum við áhyggjur. Ekki bara af almennum borgurum, við höfum áhyggjur af því að þessi stríðsátök magnist upp og valdi ómældum hörmungum og það er sorglegt að við séum að horfa upp á stríðsátök í Evrópu á þessum tímum,” segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Ríkisstjórn Íslands hefur öll fordæmt innrás Rússa í Úkraínu og kalla eftir því að gengið verði eins langt og hægt er í refsiaðgerðum á hendur þeim. Þjóðaröryggisráðs saman á áður boðaðan fund í morgun til þess að fara yfir næstu skref, þar sem afstöðu Íslendinga var meðal annars komið á framfæri við sendiherra Íslands í Moskvu í Rússlandi.

„Það liggur algjörlega ljóst fyrir að Ísland mun taka þátt í þeim efnahagslegu refsiaðgerðum sem eru fyrirhugaðar og þær voru þegar hafnar af hálfu Evrópusambandsins og samstarfsríkja, sem eru meðal annars Ísland og Noregur. Þar mun koma til harðari þvingunaraðgerða eins og það liggur fyrir og það verður aukinn viðbúnaður af hálfu Atlantshafsbandalagsins vegna þessarar stöðu,” segir Katrín.

Þá muni íslensk stjórnvöld þegar í stað leggja aukið fé í mannúðaraðstoð. Enn fremur megi búast við aukinni umferð um varnarsvæðið vegna stöðunnar. „Það sem við eigum von á er að það gætu orðið liðsflutningar af hálfu Atlantshafsbandalagsins sem gæti birst í aukinni umferð við varnarsvæðið við Keflavíkurflugvöll.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×