Viðskipti erlent

Hrá­olíu­verð ekki verið hærra í sjö ár

Atli Ísleifsson skrifar
Rússland er næststærsta olíuútflutningsríki heima á eftir Sádi-Arabíu og stærsta útflutningsríki í heimi þegar kemur að jarðgasi.
Rússland er næststærsta olíuútflutningsríki heima á eftir Sádi-Arabíu og stærsta útflutningsríki í heimi þegar kemur að jarðgasi. EPA

Olíuverð hefur farið hækkandi síðustu daga og vikur. Tunna af Brent-hráolíu kostar nú 97,44 Bandaríkjadali og hefur ekki verið dýrari í sjö ár.

Hækkunin er rakin til spennunnar á landamærum Úkraínu og Rússlands þar sem óttast er að deilan muni valda truflunum á olíuflutningakerfum heimsins.

Mikil spenna er á landamærum Rússlands og Úkraínu, sérstaklega eftir að Rússlandsstjórn ákvað í gær að viðurkenna sjálfstæði aðskilnaðarhéraðanna Luhansk og Donetsk í Úkraínu og sendi í kjölfarið herlið yfir landamærin, að sögn til að sinna hlutverki friðargæslu.

Bandaríkin, aðildarríki Evrópusambandsins, Bretland, og fleiri ríki hafa hótað að beita Rússa hörðum viðskiptaþvingunum vegna ákvörðunar stjórnar landsins. Rússland er næststærsta olíuútflutningsríki heima á eftir Sádi-Arabíu og stærsta útflutningsríki í heimi þegar kemur að jarðgasi.

Maike Currie, yfirmaður fjárfestinga hjá Fidelity International, segir í samtali við BBC að heimsmarkaðsverð á hráolíu og jarðgasi kunni að hækka enn frekar á næstunni. Vegi Úkraínudeilan þar þungt, auk hins kalda veturs í Bandaríkjunum og skorts á fjárfestingum í olíu- og gasleiðslum víða um heim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×