Sport

„Eini munurinn sem ég sé er að ég er svört, ung dama“

Sindri Sverrisson skrifar
Kamila Valieva fær að leika listir sínar á Vetrarólympíuleikunum þrátt fyrir að hafa fallið á lyfjaprófi en Sha'Carri Richardson missti af leikunum í Tókýó síðasta sumar eftir að hafa greinst með kannabis.
Kamila Valieva fær að leika listir sínar á Vetrarólympíuleikunum þrátt fyrir að hafa fallið á lyfjaprófi en Sha'Carri Richardson missti af leikunum í Tókýó síðasta sumar eftir að hafa greinst með kannabis. Getty

Bandaríska spretthlaupskonan Sha‘Carri Richardson gagnrýnir harðlega þá niðurstöðu alþjóða ólympíunefndarinnar að skautakonan Kamila Valieva megi keppa á Vetrarólympíuleikunum. Richardson var meinuð þátttaka á Sumarólympíuleikunum í fyrra.

Hin 15 ára gamla Valieva frá Rússlandi vann sigur í liðakeppni á Vetrarólympíuleikunum í síðustu viku og er langt komin með að vinna sigur í einstaklingskeppninni eftir frammistöðu sína í gær.

Valieva hefur fengið að keppa þrátt fyrir að hafa fallið á lyfjaprófi á rússneska meistaramótinu í desember, en niðurstöður úr því prófi bárust ekki fyrr en eftir liðakeppnina í síðustu viku.

Valieva greindist með árangursaukandi hjartalyf en hefur þó fengið að halda áfram keppni í Peking eftir að alþjóða íþróttadómstóllinn hafnaði kröfu um tímabundið bann, meðal annars á þeim forsendum að Valieva hefði ekki náð 16 ára aldri.

Fékk ekki að keppa vegna kannabisneyslu

Richardson furðar sig á þessu en hún féll á lyfjaprófi síðasta sumar, í aðdraganda Ólympíuleikanna í Tókyó, eftir að hafa unnið 100 metra hlaupið í bandarísku undankeppninni.

Richardson greindist með kannabis en deilt hefur verið um hvort að kannabis geti talist árangursaukandi og hvort það eigi að vera á bannlista alþjóða lyfjaeftirlitsins.

„Getum við fengið almennilegt svar við muninum á hennar [Valievu] aðstæðum og mínum?“ skrifaði Richardson á Twitter á mánudaginn.

Hún benti á að líkt og Valieva hefði hún átt góðan möguleika á verðlaunum, og segist aðeins hafa neytt kannabiss þegar hún syrgði móður sína.

„Móðir mín dó og ég gat ekki hlaupið, og ég var einnig talin líkleg til að lenda í efstu þremur sætum. Eini munurinn sem ég sé er að ég er ung, svört dama,“ skrifaði Richardson og bætti við:

„Hún féll í desember en það er rétt núna sem að niðurstöðurnar eru birtar, en nafni mínu og hæfileikum var slátrað,“ skrifaði Richardson.

IOC segir málin ólík

Alþjóða ólympíunefndin, IOC, svaraði í dag og sagði mál Valievu og Richardson vera ólík.

„Hvert mál er einstakt. Hún [Richardson] greindist jákvæð 19. júní [2021], þegar nokkuð var í að leikarnir í Tókýó hæfust,“ sagði Mark Adams, talsmaður alþjóða ólympíunefndarinnar, en leikarnir í Tókyó hófust 23. júlí.

„Hennar niðurstaða kom nógu snemma til að USADA [bandaríska lyfjaeftirlitið] gæti brugðist við í tæka tíð fyrir leikanna. Richardson samþykkti eins mánaðar bann sem hófst 28. júní,“ sagði Adams og bætti við að hann teldi málin ekki mjög lík.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×