Erlent

Rapparinn Kodak Black meðal særðra eftir skotárás í Kaliforníu

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Rapparinn Kodak Black var fyrir utan bar þegar slagsmál brutust út. 
Rapparinn Kodak Black var fyrir utan bar þegar slagsmál brutust út.  Getty/TImothy Norris

Þrír einstaklingar voru fluttir á sjúkrahús eftir skotárás í Kaliforníu í dag en meðal þeirra sem þurfti að flytja á spítala vegna skotsárs var bandaríski rapparinn Kodak Black.

Að því er kemur fram í frétt NBC um málið var skotárásin á bar í vesturhluta Hollywood en auk rapparans, sem heitir réttu nafni Bill Kapri og er 24 ára gamall, voru hinir tveir sem fluttir voru á spítala nítján ára og sextíu ára. 

Þá særðist einn til viðbótar í árásinni en þurfti ekki að leita á spítala vegna sára sinna.

Myndefni frá TMZ sýnir að rapparinn hafi verið á leið út af barnum ásamt fylgdarliði og vini þegar slagsmál brutust út milli hóps manna á götunni. Tíu skotum var hleypt af og sást fólk hlaupa í burtu. 

Að sögn lögreglu er búist við að allir nái fullum bata en ekki liggur fyrir að svo stöddu hver aðdragandi skotárásarinnar var. Málið er nú til rannsóknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×