Sport

Vann Ólympíugull í sömu grein og faðir sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Johannes Strolz fagnar hér með Ólympíugullið sitt.
Johannes Strolz fagnar hér með Ólympíugullið sitt. AP/Luca Bruno

Johannes Strolz tókst að endurtaka afrek föður síns 34 árum síðan þegar hann keppti á Vetrarólympíuleikunum í Peking. Þeir eru nú sögulegir feðgar.

Hinn 29 ára gamli Strolz kom fljótastur allra í mark í tvíkeppni alpagreinanna og fékk Ólympíugull um hálsinn að launum. Í tvíkeppninni keppa menn bruni og í svigi. Sá sem nær besta árangri samanlagt stendur uppi sem sigurvegari.

Þetta er fyrsta Ólympíugull Strolz á ferlinum en ekki það fyrsta í fjölskyldunni.

Faðir hans. Hubert Strolz, vann einnig tvíkeppnina á Ólympíuleikunum í Calgary árið 1988 eða fyrir 34 árum síðan. Hann var þá á undan landa sínum Bernhard Gstrein og Svisslendingnum Paul Accola. Strolz var mun fljótari í bruninu og vann þótt að hann hafi verið á eftir hinum tveimur í sviginu.

Sonurinn tryggði sér aftur á móti sigurinn með því að ná betri árangri í sviginu. Norðmaðurinn Aleksander Aamodt Kilde, sem varð efstur í brunhlutanum náði bara sjötta besta tímanum í svginu og varð að sætta sig við silfrið. James Crawford frá Kanada fékk brons.

Hubert Strolz tryggði sér gullverðlaun sín 27. febrúar 1988. Þá voru enn rúm fjögur ár í að að sonur hans fæddist því Johannes kom ekki í heiminn fyrr en í september 1992.

Hubert var 26 ára gamall þegar hann vann gullið í Calgary en hann tók einnig silfurverðlaun í stórsviginu á leikunum.

Þeir feðgar eru þeir fyrstu sem ná því að vinna gullverðlaun í Alpagreinum á Ólympíuleikum.

Pabbinn rekur skíðaskóla í heimabæ sínum Warth í Austurríki og það má búast við því að strákurinn hafi notið góðs af því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×