Innlent

Karlmaður sem skaut á fólk í Grafarholti í haldi lögreglu

Eiður Þór Árnason skrifar
Lögreglan var með mikinn viðbúnað vegna málsins. Ljósmyndin er úr safni.
Lögreglan var með mikinn viðbúnað vegna málsins. Ljósmyndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Karlmaður á þrítugsaldri er í haldi lögreglu eftir að tilkynnt var um skotárás í Grafarholti á fjórða tímanum í nótt. Skotið var á karl og konu sem stödd voru utandyra í hverfinu og voru þau flutt á slysadeild þar sem gert var að sárum þeirra. Þau eru ekki í lífshættu. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni en sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð til vegna málsins og handtók manninn miðsvæðis í borginni fyrr í morgun. Rannsókn er sögð á frumstigi.

„Viðbúið er að mál sem þetta valdi óhug hjá fólki, en lögreglan vill taka fram að hún telur engu að síður að almenningi sé ekki hætta búin vegna þessa. Heldur að hér sé um að ræða einstakt mál,“ segir í tilkynningu.

Umfangsmiklar lögregluaðgerðir voru við Miklubraut gegnt Klambratúni í Reykjavík á tíunda tímanum í morgun. Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir lögreglu hafa verið víða í aðgerðum í morgun. Hann vill ekki staðfesta hvort umrædd aðgerð tengist skotárásinni í Grafarholti.

Lögreglan hyggst ekki veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu, en boðar aðra fréttatilkynningu síðar í dag.

Veistu meira um málið? Vísir tekur við öllum ábendingum á ritstjorn@visir.is. Fullum trúnaði er heitið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×