Sport

Fimmtán ára rússneska undrabarnið féll á lyfjaprófi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þrátt fyrir að vera aðeins fimmtán ára þykir Kamila Valieva einn fremsti listdansari á skautum í heiminum.
Þrátt fyrir að vera aðeins fimmtán ára þykir Kamila Valieva einn fremsti listdansari á skautum í heiminum. getty/Jean Catuffe

Hin fimmtán ára Kamila Valieva, sem átti stóran þátt í því að rússneska ólympíunefndin vann gull í liðakeppninni í listdansi á skautum á Vetrarólympíuleikunum í Peking, er sögð hafa fallið á lyfjaprófi fyrir leikana.

Samkvæmt rússneska miðlinum RBC greindist ólöglegt hjartalyf í sýni Valievu sem var tekið fyrir Evrópumótið í síðasta mánuði. Valieva hrósaði þar sigri í einstaklingskeppninni.

Afhenda átti verðlaunin fyrir liðakeppnina á Vetrarólympíuleikunum í gær en ekkert varð af því. Grunur lék á að það tengdist lyfjamálum.

Valieva mætti á skipulagða æfingu í dag en svaraði ekki spurningum fjölmiðla eftir hana. Talskona rússneska skautasambandsins sagði hins vegar að Valieva væri ekki komin í bann.

Ekki liggur fyrir hvort gullverðlaunin verði tekin af Rússum vegna málsins og ef það gerist hvort þeir muni áfrýja eða sætta sig við niðurstöðuna. Bandaríkjamenn enduðu í 2. sæti í liðakeppninni og fá gullið ef Rússar verða dæmdir úr leik.

Efnið sem greindist í sýni Valievu nefnist trimetazidine. Það er á bannlista Alþjóða lyfjaeftirlitsins því það getur aukið blóðflæði og úthald.

Valieva sýndi frábær tilþrif í liðakeppninni á mánudaginn og framkvæmdi meðal annars fjórfalt snúningsstökk sem engin önnur kona hefur áður gert.

Einstaklingskeppnin í listdansi á skautum hefst á þriðjudaginn. Valieva er talin líklegust til afreka þar en enn liggur ekki fyrir hvort hún fái að keppa.

Líkt og aðrir Rússar keppir Valieva undir merkjum rússnesku ólympíunefndarinnar vegna lyfjahneykslisins þar í landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×