Sport

Rússneski skíðaforsetinn sár og neitar að tala við norska fjölmiðla

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jelena Välbe var ein fremsta skíðakona heims á sínum tíma en er nú forseti rússneska skíðasambandsins.
Jelena Välbe var ein fremsta skíðakona heims á sínum tíma en er nú forseti rússneska skíðasambandsins. getty/Sergei Fadeichev

Forseti rússneska skíðasambandsins, Jelena Välbe, neitar að tala við norska fjölmiðla vegna ummæla Jans Petter Saltvedt á NKR um lyfjamisferli Rússa.

Eftir að Aleksandr Bolshunov vann til gullverðlauna í þrjátíu kílómetra sprettgöngu sagði Saltvedt hvorki hann né aðrir Rússar hefðu átt að fá að keppa á Vetrarólympíuleikunum í Peking.

Saltvedt fannst Rússar sleppa full billega frá lyfjamisferlinu stórfellda í kringum Vetrarólympíuleikana í Sochi 2014.

Välbe tók þessum ummælum Saltvedts óstinnt upp og hefur ákveðið að sniðganga norska fjölmiðla vegna þeirra.

„Ég lýsi yfir sniðgöngu norskra fjölmiðla. Þeir komu til mín eftir keppnina og ég sagði það sem ég meinti. Ég vil ekki tala lengur við þá,“ sagði Välbe sem vill fá opinbera afsökunarbeiðni frá NRK.

Rússneska ólympíunefndin hefur unnið til tíu verðlauna á Vetrarólympíuleikunum, þar af tvennra gullverðlauna. Noregur hefur aftur á móti unnið til níu verðlauna, þar af eru fern gullverðlaun. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×