Viðskipti innlent

Fjallað um Play er­lendis: „Nýju flug­fé­lögin sem þú hefur örugg­lega aldrei heyrt um“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Good Morning America ræddi við Birgi Jónsson, forstjóra Play.
Good Morning America ræddi við Birgi Jónsson, forstjóra Play. Vísir/Vilhelm

„Þetta eru nýju flugfélögin sem þú hefur örugglega aldrei heyrt um: Breeze, Aha, Avelo, Play. Þau bjóða upp á verð sem láta þig líklega staldra við.“

Svona hefst innslag bandaríska morgunsjónvarpsþáttarins Good Morning America (GMA) um lággjaldaflugfélög sem þátturinn segir bjóða upp á einstaklega lágt verð. Þar var meðal annars fjallað um íslenska flugfélagið Play, og fjallað um verðlagningu félagsins á millilandaflugi.

Í innslaginu var rætt við Birgi Jónsson, forstjóra Play, um félagið.

„Þetta er eins og með allt í lífinu. Þú gengur inn á veitingastað og borgar fyrir það sem þú fékkst þér og það sem þú vildi fá. Það er eins með flugfélög. Ef þú ferðast eingöngu með handfarangur, eða eina tösku, þá borgarðu minna,“ sagði Birgir, sem ræddi við þáttinní gegnum fjarfundabúnað.

Þá er í innslaginu fjallað um hvernig félögin halda kostnaði í lágmarki, en þar er sérstaklega litið til vals félaganna á lendingarstöðum. Líkt og greint var frá í síðustu viku hefur Play boðað lægstu fargjöldin á flugi frá New York til Evrópu.

Það gerði félagið eftir að hafa náð hagstæðum samningum við Stewart-flugvöll, lítinn flugvöll í nágrenni New York-borgar.

Þá ræddi GMA við sérfræðing í lággjaldaflugi, sem segir lággjaldaflugfélög á borð við Play vera ástæðu þess að við lifum nú á „gullöld ódýrra flugferða.“

Innslagið má sjá í spilaranum hér að ofan, en í lok þess eru áhorfendur minntir á að auglýst verð lággjaldaflugfélaga gildir oftast um flug með eingöngu handfarangri, þar sem farþegar geta ekki valið sér sæti.

„Þannig að: Munið það þegar þið gerið verðsamanburð við stærri flugfélögin,“ sagði þulurinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×